!
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
... beðist er afsökunar á nördaskap ...
23.1.06

Vísindamaðurinn í mér hefur beðið mikinn hnekki undanfarna daga. Ástæðu þess má rekja til ákvörðunar sem leiðbeinandi minn tók um daginn. Við höfum eytt vikum og mánuðum í að reyna að átta okkur á afar flókinni kristalbyggingu málmhýdríðs sem ég hef verið að keyra reikninga á. Eftir margar mánaða reikninga töldum við okkur loks hafa fundið orkulægstu bygginguna. Í kjölfarið hófst vinna við að lýsa byggingunni sem um ræðir og var þar meðal annars notast við ofursvöl þrívíddargleraugu og þrívíddarforrit. Nú hefur hins vegar komið í ljós að einhver böggur er í niðurstöðunum. Í kjölfarið varð leiðbeinandanum ljóst að meinið yrði ekki fundið nema með smíði líkans af málmhýdríðinu. Í kjölfarið festi hann kaup á um 200 forláta frauðkúlum, bambusprikum, penslum og málningu í einhverri af betri föndurbúðum bæjarins. Nú sit ég því og mála frauðkúlur í hinum ýmsu litum og á morgun mun ég hefjast handa við að tengja þær saman með bambusprikum og þannig átta mig á kristalbyggingunni dularfullu. Það verður að viðurkennast að vísindahugsun mín hefur fallið niður á ansi lágt plan. Það er nefnilega mikill munur á ofursvölum tölvusímúleríngum og föndri með frauðkúlur...

Annars er ég ekki að átta mig á öllum æsingnum yfir andarnefjunni ógæfusömu sem synti upp Thames ána en um 23 milljónir manna fylgdust með örvæntingarfullum björgunaraðgerðum sem fólust í að hífa hvalinn upp í pramma. Af hverju þykja hvalir eitthvað merkilegri skepnur en önnur risadýr hafsins. Sjálfri þykir mér meira til risasmokkfiska og höfrunga koma.

22.1.06

Ég sendi engin jólakort um hátíðarnar frekar en síðustu 5 ár. Vil þó senda lesendum afar síðbúnar jóla- og nýárskveðjur. Jafnframt vil ég benda öllum á að kynna sér einkar frambærilega framboðslista Röskvu til Stúdenaráðs og Háskólaráðs en þeir voru einmitt kynntir á Hverfisbarnum í gær. Sérstaklega þykir mér mikið koma til stúlkunnar sem skipar 1. sætið á Stúdentaráðslistanum, enda er þar mín ástkæra systir á ferð.

Næstu helgi fer ég enn á ný til útlanda og í þetta skiptið er stefnan tekin á Kaliforníu en þar mun ég sitja ráðstefnu. Ég hef aldrei áður komið á vesturströnd USA svo þetta verður spennandi ferð.