!
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
... beðist er afsökunar á nördaskap ...
27.10.03

Jeij
Ég er búin með bæði TOEFL og GRE núna svo ég fer ekki aftur í próf fyrr en í desember. Það var frekar fyndið að koma á varnarliðssvæðið - eins og að vera í Bandaríkjunum nema bara íslenskt landslag og veðurfar. Fórum á Wendy's fyrst við vorum á staðnum...

22.10.03

Hvaða tilhneiging er það eiginlega hjá strákum að lauma sér á stelpuklósett þegar þeir þurfa að kúka? Mér finnst ég lenda alltof oft í því að bíða eftir kvennaklósettinu (t.d. uppi á þjóðarbókhlöðu) lengi lengi, loksins sturtast svo niður og út kemur strákur, oft frekar eymdarlegur á svipinn þegar hann sér að komist hefur upp um sig...
Mér finnst þetta alveg óþolandi þar sem að lyktin inni á kvennaklósettinu versnar eins og veldisvísisfall við þetta hátterni strákanna og oftar en ekki lendir maður í því að þurfa að berja gríðarlega umsvifsmikil bremsuför í klósettskálinni augum...
Hvet ég alla stráka til að hætta þessu hátterni og tefla við páfann á eigin klósettum!

GRE & TOEFL
Fór í TOEFL síðasta laugardag og er varla enn búin að jafna mig eftir það. Mætti klukkan hálfníu, settist á rassgatið og fékk svo ekki að standa upp, né bragða vott né þurrt til klukkan eitt. Mér fannst það hálfglatað sko... sérstaklega þar sem það var svo ógeðslega þungt loft inni í stofunni.
Fer svo í GRE næsta laugardag og er rétt í þessum rituðu orðum að hefja undirbúning fyrir það. Fékk nett áfall þegar ég opnaði bókina sem ég fékk lánaða til að undirbúa mig af því að prógrömmin sem maður á að fylgja til að mæta sem best undirbúinn í prófið eru lágmark 8 vikur... og ég hef einungis 3 daga til stefnu... Ó boj ó boj.

14.10.03

Mér finnst rigningin góð
Ég held nú barasta að Helgi Björns hafi verið á einhverju þegar hann samdi þennan texta. A.m.k. get ég ekki ímyndað mér að hann hafi verið með haustrigninguna í huga. Ég er komin með algjört ógeð af þessu skítaveðri, það er alltaf rok og rigning...
Þegar ég berst í gegnum veðrið milli bygginga hér á háskólasvæðinu verður mér oft hugsað til forfeðra okkar... Hvernig í ósköpunum gat fólk búið hérna á öldum áður? Í moldarkofum sem héldu hvorki vatni né vindi, í sauðskinnsskóm og einhverjum tuskum fyrir flíkur. Mér finnst ótrúlegt að íslenska þjóðin hafi lifað þessa ósiðmenningu af...

11.10.03

Þýskaland - Ísland
Þá fer þetta að skella á... Spáiði í því að Ísland sé að spila um efsta sæti í riðlakeppni fyrir EM. Það er alveg magnað.
Enn magnaðara finnst mér stuðningslagið sem baggalútur samdi í tilefni leiksins. Það var sko kominn tími til að við Íslendingar eignuðumst alvöru kappleikjalag. "Áfram Ísland - jafnvel þó við getum ekki neitt"

6.10.03

Undarlegheit
Maður verður vitni að ýmskum skrýtnum hlutum í bílferðum. Einna undarlegast þykir mér þó að rekast á stakan skó liggjandi úti á miðri götu eða við vegkantinn. Hvernig fara þessir skór að því að lenda þarna? Er fólk fleygjandi öðrum skónum sínum út um gluggan ef því leiðist í bíltúr eða hvað? Þætti mér gaman að komast að því hversu margir hafa orðið varir við einmana skó úti á götu...

5.10.03

Jæja. Ég er búin að fá tölvuna mína aftur en þurfti að borga 12000 kall fyrir viðgerðina á því sem viðgerðamennirnir skemmdu í síðustu viðgerð. Finnst mér það ansi skítt þar sem að nú á ég varla efni á að fara í klippingu...
Ætlaði að vera sjúklega dugleg að læra um helgina. Það fór því miður eitthvað fyrir ofan garð og neðan þar sem að ég endaði á fylleríi á föstudag, gerði ekkert af viti í gær og er að setjast við núna þegar klukkan er byrjuð að ganga 4 á sunnudegi. FussumSvei.
Egill hlýtur titilinn maður helgarinnar fyrir að mæta með tveggja lítra Grolsch flösku í heimboð :o)