!
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
... beðist er afsökunar á nördaskap ...
30.4.04

E2
Heimsóknin í Amagerværket var ansi skemmtileg þó hún hafi tekið ansi mikið á fyrir lofthrædda (eins og mig). Orkuverið er í rúmlega 60 m háu húsum sem eru byggð á e.k. pöllum. Því miður voru pallarnir úr gegnsæum stálrimlum svo að uppi á efstu hæð sást niður í gegnum allt húsið. Það var frekar stressandi en þetta hafðist nú allt saman.

Þessi kolaorkuver eru ansi subbó skal ég segja ykkur. Drulluleðju úr absorbernum er breytt í gips og svo þarf gígantíska hreinsun á afgasinu úr túrbínunum. Hreinsunin er mun viðameiri en rafmagns- og hitavatnsframleiðslan og pottþétt alveg rándýr. Fyrirtækið sem á orkuverið heitir E2 og á það nokkur önnur slík á Sjálandi (t.d. Svanmölleværket og Örstedsværket), ásamt einni vatnsaflsvirkjun í Svíþjóð sem er mesta stoltið sökum þess hve umhverfisvæn hún er. Kynningarfulltrúinn sem leiddi okkur um fyrirtækið sagði svo stolt frá því að á næstunni ætti að hefja notkun á jarðhita til hitavatnsframleiðslu. Ég vissi varla hvaðan á mig stóð veðrið því ég vissi ekki til þess að jarðhita væri að finna hér í Danmörku. Í ljós kom þó að lokið hefur verið við borun á 3 km djúpri borholu sem gefur 70°C heitt vatn! Það er nú bara hlægilegt að ætla að nýta það með tilheyrandi kostnaði til að framleiða 100°C heitt hitaveituvant. Eflaust er þetta þó meira gert upp á ,,lúkkið" heldur en af hagkvæmni í rekstri. Þessi hola á amk að sjá 5000 heimilum fyrir heitu vatni.

Í kvöld er árshátíð hjá DTU en ég fer víst ekki þar sem það er allto mikið að gera hjá mér. Ætla þó að skella mér í flottan dinner ásamt nokkrum öðrum Íslendingum en stinga svo af áður en restin fer á ballið. Það verður víst piparsteik í matinn. Ég hef nú ekki verið mikið fyrir nautasteikur undanfarin ár en ég hlakka nú samt óskaplega mikið til að fá almennilegan kvöldmat svona einu sinni. Namminamm. En best að snúa sér aftur að varmaflutningsfræðinni. Dem.

29.4.04

Í fyrramálið er ég að fara í field-trip með Air Pollution kúrsinum mínum í Amagerforbrænding. Amagerværket er eitt stærsta (ef ekki stærsta) orkuverið í Danmörku. Það keyrir á kolum og þarf þar af leiðandi massíva hreinsun á útblæstri áður en sleppa má afgasinu út í andrúmsloftið. Held það eigi eftir að vera spennandi að sjá öðruvísi orkuver en Nesjavelli. Að sjálfsögðu eru Nesjavellir þúsund sinnum flottari, umhverfisvænni og í alla staði betri - enda Ísland bezt í heimi.

Sá dálítið fyndna grein í einhverju dönsku dagblaðanna um daginn. Stjórnmálaflokkur nokkur (sem ég man ekki hvað heitir) hafði lagt fram hugmynd um að hefja hreinsun á drykkjarvatninu á Sjálandi. Ríkisstjórnin hélt nú ekki - þar fyrirfyndist nefnilega besta drykkjarvatn í heimi og algjör peningasóun að vera eitthvað að hreinsa það sem hreint er.

Heyrði svo eitthvað af því að hin fyrrum ofurdýrkaða hljómsveit, Take That, hefði ætlað að taka upp þráðinn á ný en Robbi Williams hefði sagt nei. Ég var alveg inni í boy-böndunum hérna um árið og fór að velta fyrir mér hvað hafi eiginlega orðið um hljómsveitir á borð við East 17, Boyzone og Peter André (hét gaurinn með sílikonmagavöðvana það annars ekki).

28.4.04

Verkfræðinördar
Sit hérna uppi í skóla og er að reyna að læra varmaflutningsfræði. Verst að hér er eiginlega ólíft því að hópur af verkfræðinemum er með heimasmíðaða fjarstýrða bíla í torfærukeppni beint fyrir utan gluggan hjá mér. Ekki veit ég hvaða vélar þeir eru að nota en það er sko klikkaður hávaði frá þeim. Meiri dónaskapurinn.

Það er alltof mikið að gera. Þessa stundina hef ég mikla þörf fyrir klón sem gerir allt sem ég hef ekki tíma til að gera: taka til og þrífa, versla í matinn og búa til nesti, lesa leiðinlegustu kaflana í varmaflutningsfræði og skanna þá inn í heilann minn og leysa massa- og orkujafnvægi fyrir process design verkefnið svo hægt sé að byrja á einhverjum alvöru útreikningum í því. Svo er bara spurnig hvort framtíðin liggji í "vinnuklónum" af þessu tagi.

27.4.04

Helgin
Þessi helgi var nú alveg hreint dæmalaus. Fór yfir til Svíþjóðar á föstudaginn og dvaldi í eina nótt hjá Kristínu og Sindra í góðu yfirlæti. Mikið var nú gaman að hitta þau - þó heimsóknin hafi ekki verið löng í þetta skiptið. Á laugardagsmorgninum var förinni heitið áfram til Stokkhólms. Hitti Örnu í bænum og var stefnan að sjálfsögðu tekin beint á verlsunargöturnar. Eyddum dággóðum tíma í H&M og enn lengri í Adidas Concept Store (a.k.a. himnaríki Örnu). Því næst fórum við á pöbbarölt í boði frænda Örnu sem búsettur er í Stokkhólmi. Höfðum okkur til á mettíma fyrir kvöldið (mettími == korter) og örkuðum svaka sætar af stað að hitta Adidas-gengið. Fórum út að borða og svo á 4 heitustu klúbba Stokkhólms þar sem við komumst fram fyrir allar raðir - enda með VIP. Ég verð nú samt að viðurkenna að ég fíla sænska klúbba ekkert rosalega vel - ekkert nema Europop, Techno og furðulega klætt fólk - ýmist hálfnakið eða með buxur gyrtar ofan í sokka. Við komum heim um 4-leytið - 2 tímum áður en við þurftum að vakna til að komast út á flugvöll.

Ógæfan dundi yfir okkar þennan sunnudagsmorgun. Við tókum fly-bus út á flugvöll. Því hefðum við betur sleppt og splæst í lest því hann var alltof lengi á leiðinni og þegar við loksins komumst á leiðarenda voru 2 mínútur frá því lokað hafði verið fyrir innritun í flugið. Við máttum því horfa á eftir vélinni okkar í loftið. Útlitið var ekki gott því uppbókað var í allar aðrar ferðir til Malmö þennan daginn. Við ákváðum því að fljúga til Ängelborg, taka þaðan rútu til Helsingborgar og fara með lest frá Helsingborg til Malmö. Heimferðin varð því eilítið lengri en til stóð. Ekkert var gert af viti eftir að við stigum fæti á danska grund á ný - sváfum í hátt í 12 tíma og vöknuðum endurnærðar til að fara á Strikið, í Fields og í Tívolí.

23.4.04

Skjótt skipast veður í lofti þegar Arna á í hlut
Hún Arna er nú alveg hreint mögnuð. Hún kom hingað til Danmerkur til að heimsækja mig (og aðra ættingja) en nú hafa plönin okkar skyndilega breyst yfir í að ég fer að heimsækja hana í Stokkhólmi á morgun til að fara í Adidas partý með henni...

Til að hámarka nýtni þessarar óvæntu Svíþjóðarferðar hef ég ákveðið að skella mér yfir Eyrarsundið í kvöld og kíkja á Kristínu og Sindra. Reyndar verður Sindri fjarri góðu gamni eins og seinast þar sem hann er að fara í próf á morgun (furðulegt hvernig prófin hans hittast alltaf á mögulegar heimsóknir frá mér ... hmmm ...). Ég flýg svo til Stokkhólms í fyrramálið og fæ að vera í Adidas-íbúðinni (hvað sem það nú er) með Örnu. Annað kvöld er svo eitthvað rosalegt Adidas partý (kann ekki frekari skýringu á því en ég held að það sé einhverskonar grímuball). Við Arna fljúgum svo saman til baka eldsnemma á sunnudagsmorgun.

Ég verð því að fresta afslöppuninni sem ég ætlaði að taka út í dag og á morgun þangað til 6. júní. Úff.

22.4.04

Gleðilegt sumar :0)

21.4.04

Búin að bomba inn myndum úr afmælinu mínu. Tjékkit.

19.4.04

Ég verð nú að viðurkenna að ég fer að verða ansi þreytt á því að hanga endalaust inni í verkefnavinnu á meðan úti er glampandi sólbaðsveður. Væri miklu frekar til í að fara á ströndina eða rölta um Strikið eða eitthvað. En það þýðir víst lítið að láta sig dreyma um það því það tók töluvert lengri tíma en gert var ráð fyrir að semja skýrslu á dönsku svo þess vegna er allt lærdómsplanið farið úr skorðum. Verð líklega að sleppa því að sofa svona u.þ.b. 2 daga í viku til að komast yfir allt sem þarf að nást fyrir 11. maí.

Mér er svo ánægja að tilkynna að orðrómurinn sem dreifst hefur eins og eldur um sinu er réttur... Ég kem heim 6. maí til að taka varmaflutningsfræðiprófið og fer ekki aftur út fyrr en 23. maí.

18.4.04

Varstu að tala í símann Frímann?
Síminn minn dó í dag, rétt áður en hann náði þriggja ára aldri. Það er búið að vera mikið vesen að hlaða hann upp á síðkastið en sökum bágs fjárhags þrjóskast ég til að nota hann. Í dag tók hann hins vegar upp á því að hætta að hringja þegar ég vildi hringja í fólk. Þá fannst mér nú nóg komið og mun honum verða skipt út fyrir yngra og flottara módel á morgun því hún Arna ofurpæja ætlar að koma færandi hendi með nýjan síma úr flugstöð Leifs Eiríkssonar handa mér. Ég ætla að fá mér svona fínan grænan Nokia síma því eins og allir vita er grænn heitasti tískuliturinn í ár.

17.4.04

Nördalört
Síðustu dagar eru búnir að vera samfelldur lærdómur frá morgni til kvölds. Afköstin eru heldur ekki af verri endanum - er komin yfir 4 kafla í varmaflutningsfræði, síðustu tvö verkefnin í Process Design eru búin, útreikningum á lokaverkefni í Kemisk Reakionsteknik er lokið og nú er unnið við skýrsluvinnu af áfergju. Reyndar er þar einn hængur á - skýrslan er á dönsku svo það tekur hrikalega langan tíma að klambra saman textanum. Oft hefur það nú komið sér vel að eiga mömmu sem er dönskukennari en ég hef aldrei verið jafnánægð með það og nú því hún ætlar að lesa skýrsluna yfir áður en við skilum henni - bara svona til að tryggja að málfarið sé ekki á stigi sex ára barna...

Tók mér stutta pásu frá lærdómi í gærkvöldi og fór á árshátíð Íslendingafélagsins við DTU. Þar var fínn grillmatur á boðstólum ásamt páskabjór og einhverri verstu bjórtegund sem ég hef smakkað - hún hét pilsner eitthvað...

Í köld ætla ég að borða góðan mat og fara annaðhvort í bíó eða glápa á sjónvarpið heima. Svo er það bara rise og shine klukkan níu í fyrramálið til að halda áfram með skýrsluna. Hún þarf að klárast á morgun til að hægt sé að ljúka við lokaverkefni í Air Pollution sem á að skila á föstudaginn. Einhversstaðar í öllum þessum lærdómi verð ég svo að hafa mikinn mikinn tíma til að vera með Örnu því hún kemur á mánudaginn.

15.4.04

Í dag var aftur glampandi sól og ég er barasta orðin dálítið sólbrunnin í framan. Ég þarf greinilega að gera mér ferð í Matas og fjárfesta í sólarvörn ef ekki á illa að fara.

14.4.04

(g)Edda í Danmörku á ný
Þá er ég komin aftur til Danmerkur eftir að hafa verið í vellystingum heima á Íslandi í 11 daga. Því miður get ég ekki sagt að ég sé neitt voðalega ánægð með að vera komin aftur í illa lyktandi húsakynnin mín hér með köldu sturtunni en ég verð víst að þrauka tímann sem eftir er ef mig langar að útskrifast í sumar. Framundan eru ansi strembnar vikur því sex stór skilaverkefni og varmaflutningsfræðipróf hrúgast upp með nokkurra daga millibili. Áður en mesta geðveikin tekur við ætlar hún Arna skvísa þó að kíkja í heimsókn. Mikið afskaplega hlakka ég til þess.

Hérna er annars komin sumarblíða (amk á íslenskan mælikvarða). Í dag var milli 15 og 20 stiga hiti og nýtti fólk sér það til hins ítrasta og borðaði úti í hádeginu. Ég ákvað að gera slíkt hið sama og plantaði mér í garðinn fyrir utan matsalinn. Þar er búið að búa til hálfgerða vaðpolla ofan í steyptum kerjum og sleppa hornsílum, smáfiskum og nokkrum risa geddum út í. Mér brá sko heldur betur þegar mér var bent á geddurnar því ég hélt fyrst að þar væru álar á ferð - ojojoj. Ég sé ekki alveg tilganginn með að hafa þessa fiska þarna - þeir ættu frekar að fá að svamla frjálsir í ám og vötnum. Reyndar fer eflaust svo að þeir verði dauðir innan nokkurra daga þar sem helsta sportið hjá karlkyns nemendum hér virðist vera að kasta steinum í greyin... Hjúkket að ég er ekki gedda í DTU-pollunum.

9.4.04

Hún á afmæli í dag,
hún á afmæli í dag,
hún á afmæli hún Edda,
hún á afmæli í dag.

Haldiði að mín sé ekki bara orðin 23. Ó boj, ó boj.

6.4.04

Er búin að vera á fullu frá því ég kom heim til Íslands og sé sko ekki fram á rólegri daga á næstunni. Það er samt allt í lagi því það er alveg hrikalega gaman að vera komin heim. Gleðilega páska.

1.4.04

Mikið rosalega er ég ánægð með lagabreytingatillögurnar fyrir aðalfundinn hjá Vélinni. Það er kominn tími til að efnaverkfræðingarnir í deildinni séu metnir að verðleikum. Way to go stjórn. Svo er bara að vona að félagsmenn samþykki breytingarnar.

1. apríl
Hér hafði ég hugsað mér að hafa alveg magnað aprílgabb en eitthvað er sköpunargleðin að bregðast mér þessa dagana því mér datt ekkert nógu sniðugt í hug þrátt fyrir miklar vangaveltur.

Annars er mér alveg hætt að lítast á ástandið hér í Kaupmannahöfn. Maður var skotinn á Kastrup í síðustu viku, annar brenndur lifandi inni í eigin húsi en mér féllust sko gjörsamlega hendur þegar ég las eftirfarandi frétt á mbl.is:

Allt að sjö manns voru handteknir í Kaupmannahöfn á þriðjudagskvöld, grunaðir um tengsl við hryðjuverkastarfsemi en tugir danskra lögreglumanna og sprengjusérfræðinga gerðu áhlaup á bóndabýli í Ishøj sem er úthverfi borgarinnar. Einn maður, 38 ára gamall Marokkómaður, var í gær úrskurðaður í 13 daga gæsluvarðhald vegna málsins. Lögregla og stjórnvöld vilja lítið tjá sig um málið og heldur ekki lögmaður Marokkómannsins en gæsluvarðhaldsréttarhaldið var fyrir luktum dyrum og slíkt gerist aðeins ef um er að ræða mjög alvarleg glæpamál á borð við hryðjuverkastarfsemi eða njósnir.

Vá hvað ég hlakka til að komast heim til friðsæla Íslands - Ishöj er nefnilega alls ekki svo langt frá Bagsværd þar sem ég bý. Skerí.