!
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
... beðist er afsökunar á nördaskap ...
17.12.05

Á mínum yngri árum horfði ég reglulega á allar íslensku bíómyndirnar sem til voru heima hjá mér. Ég giska á að ár hvert hafi ég horft u.þ.b. sex sinnum á Stellu í orlofi, Magnús, Karlakórinn Heklu, Með allt á hreinu, Dalalíf, Löggulíf og án efa einhverjar fleiri sem ég er að gleyma. Í gær rifjaðist upp fyrir mér orðatiltæki sem annaðhvort Þór eða Danni nota í Dalalíf og ég hef aldrei skilið. Í atriðinu sem um ræðir eru þeir félagarnir staddir á nokkuð sjúskí breikklúbbi og annar þeirra (Þór, held ég) segist ætla að láta sér renna aðeins í brjóst. Ég eyddi ófáum mínútum í vangaveltur um merkingu þessa orðtaks og í kringum 13 ára aldur komst ég að þeirri niðurstöðu að það merkti annaðhvort að fá sér blund eða þá að drekka sig fullan. Enn þann dag í dag hef ég ekki komist að sannleika þessa máls.

15.12.05

Það er alveg ótrúlegt hvað heilinn minn spyrnist gegn því að meðtaka ákveðnar staðreyndir. T.a.m. get ég á engan hátt munað að bóseindir hafa samhverft bylgjufall en fermíeindir hafa oddstæð bylgjuföll. Þetta skiptaeðli agnanna er háð því hvort spunatala agnanna er heil eða hálf tala. Þannig hafa allar bóseindir heiltöluspuna en allar fermíeindir hálftöluspuna. Ég veit ekki hversu oft farið hefur verið í þetta í námskeiðum sem ég hef setið en samt verð ég alltaf jafnhissa þegar ég rekst á þessa staðreynd. Magnað?

Hvað er annars málið með kaupgleði Íslendinga þessa dagana. Maður má varla bregða sér út fyrir hússins dyr (hvað þá í nágrenni Laugavegarins, Kringlunnar eða Smáralindar) án þess að rekast á fólk í offors-jólakaupaleiðangri.

11.12.05

Skellti mér loksins á nýju Harry Potter myndina áðan og mikið rosalega er hún góð. Megn táfýla af unglingsstrák sem sat við hliðina á mér skemmdi samt örlítið upp á bíófílinginn en ég þraukaði samt eins og sannur víkingur.

Vissuð þið annars að málningarfyrirtækið Harpa Sjöfn heitir núna Flugger litir. Mér finnst synd að svona rammíslensku nafni sé fargað fyrir þýskukennt nafn bara út af samruna fyrirtækja. OgHanaNú!