!
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
... beðist er afsökunar á nördaskap ...
28.11.05

Fór á tónleika Sigur Rósar í Höllinni í gær og þeir voru í stuttu máli sagt hreinn unaður. Ég var samt orðin svolítið þreytt í fótunum undir lokin enda búin að standa í rúma þrjá tíma.
MENTAL NOTE TO SELF: Kaupa stúkumiða næst.

Var á faraldsfæti í síðustu viku um Kaupmannahöfn og Osló. Mér tókst að þræða allar helstu búðirnar á Strikinu og í Field´s á mettíma og kaupa svo gott sem allar jólagjafir og fínerí handa sjálfri mér. Kórónaði svo dvölina í Köben með Tuborg Julebryg í jóla-Tívolí. Dagarnir í Osló voru öllu glataðri ... svartaþoka og fimbulkuldi inni á 4-5 stjörnu hóteli. Ég hef nú styrkst enn frekar í þeirri trú að Norðmenn séu ekki með öllum mjalla.

21.11.05

Við Lindi skelltum okkur á Woyzeck á föstudaginn og urðum fyrir dálitlum vonbrigðum. Ég bjóst við álíka magnaðri sýningu og Rómeó og Júlíu en varð því miður ekki að ósk minni. Verst var þó hvað sýningin var stutt en við vorum komin út kl. 21:30. Á laugardagskvöldið var svo búið að plana mikið húllumhæ en ég varð því miður lasin svo ég þurfti að hanga heima yfir leiðinlegustu mynd allra tíma - Loch Ness. Öllu verra er þó að mér er ekki enn batnað og í fyrramálið mun ég fljúga til Köben þar sem ég ætlaði að eyða deginum í jólagjafainnkaup á Strikinu. Vona bara að ég hressist í flugvélinni ...

Á miðvikudaginn fer ég svo til Noregs að halda fyrirlestur. Gaman, gaman ...

11.11.05

Kári næsti Einstein?
Kári Stefánsson kynnti í gær nýja uppgötvun Íslenskrar erfðagreiningar á breytileika gens sem eykur líkur á hjartaáfalli. Það er alltaf gaman þegar viðamiklar rannsóknir skila árangri sem þessum. Það verður þó að viðurkennast að nýja klippingin hans Kára hafi stolið þrumu (e. thunder) uppgötvunarinnar þar sem Kári minnir nú skuggalega mikið á Albert nokkurn Einstein. Ætli það liggi einhver djúp pæling á bak við þessa hrikalegu klippingu? Ætli Kári haldi að vegur hans innan erfðavísindanna eigi eftir að aukast eftir þetta meik-over? Nei, ég bara spyr...

3.11.05

Nú er sá tími ársins genginn í garð sem gæddur er þeim illa eiginleika að sólarhringurinn inniheldur bara ekki nógu marga klukkutíma til að hægt sé að ljúka öllum verkefnum sem biðu manns í upphafi dags.