!
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
... beðist er afsökunar á nördaskap ...
29.10.05

Í gær féll ég kylliflöt fyrir utan Bónus í Holtagörðum. Ástæða? Fljúgandi hálka. Ég hafði rétt svo lokið við að skila innkaupavagninum þegar atvikið átti sér stað. Ég lenti fyrst á hnjánum en náði þó að setja hendurnar fyrir mig til að draga úr fallinu áður en mallakúturinn skall í götuna. Ég veit ekki alveg hvort ég náði að halda kúlinu...

Annars er ég að fara til Oslóar í lok nóvember. Flýg í gegnum Kaupmannahöfn og ætla svo sannarlega að nýta tækifærið og skella mér í jólainnkaupaleiðangur á Strikinu. Nýja línan frá Stellu McCartney verður nýkomin í H&M svo þetta gæti varla verið betra.

24.10.05

Áfram stelpur
Kvennafrídagurinn var í dag og í tilefni þess skellti ég mér í baráttugöngu og -fund. Ég gekk nú ekki svo langt að ganga úr tíma kl. 14:08 heldur fór ég bara í næsta hléi á eftir. Það var alveg mögnuð stemning í bænum, enda ekki annað hægt þegar hátt í 50 þúsund manns safnast saman til að krefjast aukins jafnréttis kynjanna. Mér finnst algjörlega óþolandi að hugsa til þess að í framtíðinni eigi ég e.t.v. eftir að fá lægri laun en karl fær fyrir nákvæmlega sömu vinnu. Vonandi fara ráðamenn og atvinnurekendur að hysja upp um sig buxurnar í þessum efnum því núverandi staða er fullkomlega óásættanleg.

16.10.05

Tímamót í tónlistarsögunni
Hljómsveitin Take That mun koma saman á næstunni í tilefni af því að tíu ár eru liðin frá því að hún lagði upp laupana. Ég var einlægur aðdáandi "i den" og umraðaði plakötunum mínum af drengjasveitinni ósjaldan á piparmyntugrænu unglingaherbergisveggjunum mínum. Ég hef ekki verið dugleg við að hlusta á smelli Gary Barlow undanfarin tíu ár en breyting varð þar á um daginn þegar ég skellti mér á myndina Adams æbler á kvikmyndahátíð. Lagið "How deep is your Love" fékk nefnilega mikla spilun í myndinni. Sá sem getur giskað á hvern ég hélt mest upp á í Take That fær tíkall!

14.10.05

Heppin?
Þessa önnina sit ég einungis einn kúrs (safneðlisfræði) og tek því einungis eitt próf í desember. Haldiði að prófið sé ekki 21. desember. Heppin?