!
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
... beðist er afsökunar á nördaskap ...
20.4.05

Ég veit nú ekki alveg hversu vel mér líst á nýja páfann. Hefði haldið að það hefði verið skynsamlegra að finna einhvern sem væri aðeins meira í takt við tímann, ekki á móti jafnrétti kynjanna og með ögn jákvæðara viðhorf til getnaðarvarna en sá nýi. Í ofanálag hefur hann svo valið sér nafnið Benedikt sem mér finnst hlálegt því að kvensjúkdómalæknirinn minn ber sama nafn. Verst af öllu þykir mér þó hversu líkur hann er keisaranum úr Star Wars myndunum en eins og þessi mynd sýnir þá er augnsvipur þeirra nánast hinn sami. Mér ætti samt svo sem að standa á sama um málefni páfa enda er ég ekki kaþólsk og lítt trúuð yfir höfuð.

En yfir á öll efnafræðilegri nótur. Geislavirka efnið radíum á 103 ára afmæli í dag og er það vel. Af vetni er það hins vegar að frétta að mikil ráðstefna því til heiðurs verður haldin hér á landi í næstu viku og önnur í Svíþjóð í júní en á þeirri síðarnefndu á ég víst að flytja erindi. Gúlp.

19.4.05

Um helgina fór ég á myndina Downfall (eða Untergang eins og hún heitir á frummálinu) sem sýnd er á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni. Myndin gerist í kanslarabyrgi Berlínar í lok apríl 1945 þar sem Hitler og nánustu undirmenn hans hírðust síðustu daga Þriðja ríkisins. Myndin er í stuttu máli sagt alveg gríðarlega góð og ég mæli með að fólk drífi sig í bíó.

Annars þykir mér gaman að sjá að nú er sumarið alveg á næsta leiti ... úti er um 12 stiga hiti og sól. Gott ef maður fer ekki að grafa upp línuskautana og renna sér eftir Ægissíðunni.

17.4.05

Nú er víst ekki seinna vænna en að rífa sig upp úr vetrardvalanum og byrja bloggfærslur á nýjan leik. Í tilefni þess hefur síðan tekið gagngerum breytingum eins og glöggir lesendur taka e.t.v. eftir. Ég er þó ekki alveg sátt við nýja útlitið þar sem ég lenti í vandræðum með auglýsingaborða sem birtist alltaf eins og skrattinn úr sauðaleggnum efst á síðunni. Til bráðabirgða hef ég "hvíttað" yfir hann en ef einhver veit um betri lausn má sá hinn sami gjarnan hafa samband.

Ég vildi gjarnan segja að margt hafi drifið á daga mína upp á síðkastið en svo er nú ekki. Undanfarinn mánuður hefur einkennst af vinnu, lestri og 24 ára afmæli. Næsta mánaðar mun ég hins vegar reyna að njóta út í ystu æsar af því að ... ég er ekki að fara í nein próf, ligga ligga lái.