!
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
... beðist er afsökunar á nördaskap ...
18.12.04

Ég þoli ekki að taka kúrsa sem enda sem sjálfsnám sökum lélegs skipulags kennara.

15.12.04

Hámark bjarsýninnar er að taka með sér skólabækur á hárgreiðslustofu
Ég fór í klippingu áðan og hugðist lesa kafla eða tvo í eðlisfræði þéttefnis á meðan strípuefnið verkaði í hárinu mínu. Eitthvað varð lítið um lærdóm þar sem það gjörsamlega flæddi allt í slúðurblöðum á stofunni. Ég varð því einskis vísari um nykurrúm og rafeindabönd en veit upp á hár hvað er að gerast í lífi fræga fólksins.

14.12.04

Ég er að leka niður af þreytu ...
Ástæðan er án efa of lítill nætursvefn. Ákvað að leggja mig áður en ég færi að slefa ofan í eðlisfræði þéttefnis bókina af þreytu. Gleymdi hins vegar að það er ekki fræðilegur möguleiki að hvíla sig milli 1 og 4 á daginn því þá eru leikskólakrakkarnir alltaf úti. Verð því að halla mér að kaffivélinni í þetta skiptið. Mikið hlakka ég til að SOFA um jólin !!!

13.12.04

Ég er búin að strengja áramótaheit...
... ég er hætt að nota Microsoft Office pakkann. Of oft hef ég lent í veseni með skýrslur, fyrirlestra og ritgerðir út af leiðindaveseni í Office-forritunum. LaTex here I come ...

11.12.04

Hvað er meira hressandi en að taka þriggja tíma próf sem er ekki möguleiki á að klára á innan við fimm tímum?

Eruði svo nokkuð búin að gleyma að Stekkjastaur kemur til byggða í kvöld? Hvað ætli hann gefi mér flott í skóinn??? A.m.k. ekki kartöflu því ég er búin að vera rosa stillt og góð upp á síðkastið =)

10.12.04

Þá er aldeilis farið að síga á seinni hlutann í skammtafræðilestri, enda einungis 8 klst og 45 mínútur í prófið. Eigi er örgrannt um vott af kvíða sökum þess, enda efnisskilningur minn eins og sínusbylgja... Vonandi verður þetta síðasta nördafærslan í bili. Sé fram á skemmtilegri daga á næstunni :)

7.12.04

Er búin að dunda mér í truflanareikningum seinni parts dags eftir að hafa gefist upp á að skilja hvernig Clebsch-Gordon stuðlar eru reiknaðir. Rétt í þessu var ég að ljúka við dæmi þar sem vetnisatóm var truflað með mættinu W=1/2m(wR)^2. Ég nálgaði orku grunnástands atómsins bæði með því að líta á W sem truflun en líka með því að líta á Coulomb mættið sem truflun á þrívíðum einsátta svefli. Svona dæmi eru miklu skemmtilegri en týpísku eðlisfræði-skammtafræðidæmin sem ég þarf yfirleitt að reikna.

Ég er orðin svo mikið nörd að það hálfa væri nóg. Ég er líka farin að vera utan við mig daginn út og daginn inn. Um daginn þegar ég var í Kringlunni tók ég t.d. ekki eftir 10 m jólatré og labbaði beint á það.

4.12.04

Hvers á ég að gjalda?
Sjálfsvorkun mín vex með ógnarhraða þessa dagana og stefnir í að hún verði komin í hæstu hæðir næsta fimmtudag (enda skammtafræðiprófið á föstudag). Stafar hún ekki eingöngu af takmarkaðri kunnáttu minni í fræðum um hverfiþunga, segulsvið, spuna-brautar víxlverkun og fleiri álíka spennandi hugtök, heldur einnig af stöðugu utanaðkomandi áreiti sem dregur úr einbeitingu. Síðustu daga hefur runnið upp fyrir mér á hve hávaðamenguðu svæði ég bý. Ég efast t.d. um að margir geti stært sig af því að hafa tvær leikskólalóðir innan 100 m frá stofu- og svefnherbergisgluggum, svo ekki sé minnst á flugvöll í aðeins meiri fjarlægð. Til að bæta gráu ofan á svart eru nágrannarnir á efri og neðri hæðinni miklir hávaðaseggir. Eru ekki til einhvers konar reglugerðir um hve mörgum hávaðamengandi fyrirbærum má troða á hverja flatarmálseiningu ?!?

1.12.04

Þá er formlegur próflestur hafinn og sé ég fram á ansi leiðinlegan desembermánuð. Ég er alveg við það að fá mig fullsadda af prófum ... fer maður nú ekki bráðum að verða búinn með sinn skammt af þeim?!? Það væri a.m.k. gaman að geta talið saman öll prófin sem maður hefur lært fyrir í gegnum tíðina.