Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu |
... beðist er afsökunar á nördaskap ... |
30.12.02
Arghh.... ég þoli ekki þegar ég byrja að breyta síðunni minni en hef svo ekki tíma til að klára það... Held samt ég noti annað lúkk, þetta er alls ekki að virka nógu vel. Sýniði vinnandi manneskju samt þolinmæði. Þetta verður komið í lag innan nokkurra daga.
29.12.02
Kíkti aðeins á djammið í gær. Fórum fyrst til Hauks en enduðum á Hverfisbarnum þar sem Geir Óla var að spila, okkur til ómældrar ánægju. Var samt frekar ósátt við hve mikill hluti kvöldsins fór biðraðir. Fyrst biðum við fyrir utan hverfis alveg heillengi í troðningi og rugli og fyrir vikið var tuttuguogfimmþúsundkróna kápan mín öll útötuð í bjór og öðrum viðbjóði. Seinna um kvöldið var svo ákveðið að fara á Nonna en eftir hálftíma hangs þar gáfumst við upp og fórum á BSÍ. Ég held svei mér þá að ég fari bara að troða mér aftur í röðum, það er ekkert gaman að vera bara kurteis og bíða meðan aðrir troðast fram fyrir mann...
28.12.02
Hí á Hauk. Hann á heima í nýbúabyggingu.
24.12.02
Af einskærri leti og nísku á frímerkjakostnað þá hef ég ákveðið að senda engin jólakort þetta árið (og eflaust munu þá næstu ár fylgja í kjölfarið). Þið vinagimp verðið því að láta ykkur nægja netkveðjur. Ég var búin að búa til voða fínt jólakort með mynd og alles en ég týndi því og nenni ekki að gera annað svo þið verðið að sætta ykkur við eftirfarandi kveðju og hugann sem henni fylgir: Elsku öll ! Vonandi eigið þið gleðileg jól og stuði rík áramót. Takk fyrir árið sem er að líða og ég vona að við munum skemmta okkur jafnvel saman á nýja árinu. Þið eruð yndisleg, Edda Sif. P.S. Um að gera að skila jólakveðjum til fjölskyldunnar frá mér, svo lengi sem það sé við hæfi... (þ.e. svo lengi sem ég þekki fjölskylduna...)
23.12.02
Ja hérna... ég hélt að dagurinn í dag myndi verða chill út í gegn en guð minn góður hvað ég hafði rangt fyrir mér. Mætti í vinnuna upp úr ellefu og bjóst við að verða búin um þrjúleytið, hins vegar var ég að koma heim (klukkan sjö sko), þarf að demba mér í sturtu því ekki vil ég anga af skötu/hangikjöts/hamborgarhryggslykt í matarboðinu sem ég er að fara í. Klukkan tíu þarf ég svo að vera mætt aftur í vinnuna... ewwww... Æi samt alltaf gott að fá óvæntan tíu þúsund kall :0) Svo vil ég koma því á framfæri að ég er ekki að fara í skötuboð því enginn heilvita maður myndi éta myglað, flatt dýr sem er með hálfgerðan skráp í stað skinns ofan á allt annað.
22.12.02
Ég er mestmegnis hætt að taka þessi netpróf en í ljósi þess hve fjölbreytta blótflóru ég hef ákvað ég að tékka á hvaða orð lýsti mér best... Niðurstaðan er frekar fyndin :0) aðrir mega dæma um hvort hún er rétt. What swear word are you? brought to you by Quizilla
Það er ólýsanlega góð tilfinning að vera í jólafríi, gæti alveg vanist þessu. Sérstaklega í ljósi þess að ég er búin að kaupa allar jólagjafir og er næstum búin að gera minn hluta af jólaþrifunum ásamt því að ég er líka búin að vinna mér inn smá pening (and there is more to come...). Þess vegna get ég bara chillað fram að jólum (fyrir utan að ég er að vinna dáldið mikið) og þarf ekkert að taka þátt í þessu jólastressi sem einkennir yfirleitt landann síðustu dagana fyrir jól ...
20.12.02
Jólafrí ..... Endlich :0)
19.12.02
Arrghh... hugur minn er andsetinn af Agli og gott ef líkami minn er það ekki líka. Afleiðingarnar eru að ég er búin að vera sóðalega löt í dag sem er mjög ólíkt mér. Annars hef ég aldeilis gaman af þeim tveimur málum sem eru hvað heitast í brennidepli í gær og í dag. Hið fyrra er náttla að Ingibjörg Sólrún ætlar í alþingisframboð. Fyndið að sjá hvað hinir flokkarnir eru hræddir við hana... Afhverju má hún ekki vera á þingi og borgarstjóri fyrst Björn Bjarnason ætlaði að gera það? Fífl... Amk vona ég að sem flestir kjósi hana því hún er sko algjör gella, meiraðsegja Dabbi kóngur er uggandi nálægt henni. Hitt málið sem ég minntist á er svo hvítstorkurinn Styrmir sem fyrrum vinnufélagar mínir á Náttúrufræðistofnun Íslands fönguðu á austfjörðum í gær. Það eru bara 500 manns búnir að skoða hann í dag og allir fyrir austan voða fúlir því þeir vildu hafa storkinn áfram þar. Come on sko... get a life.
18.12.02
Jæja, þá er greiningin búin. Get ekki sagt að frammistaða mín hafi verið neitt til að hrópa húrra yfir en ég held nú að ég nái þessu alveg og það dugar mér... Aldrei meiri stærðfræðigreining... Yess. Þá er bara að vinda sér í lífrænu efnafræðina. Guð hvað ég hlakka til að fá jólafrí.
16.12.02
Í dag er mínus fjórði í djammi... er ekki alveg búin að ákveða hvað ég ætla að drekka um helgina, stefnir allt í rauðvín og bjór á föstudaginn... ætli ég haldi mig svo ekki bara við bjórinn á laugardaginn. Við Vicks ætlum svo að fá okkur stelpukokteil á djamminu í staðinn fyrir að gefa hvor annarri jólagjöf. Þessa stundina stefni ég á margaritu...
14.12.02
Arrrggghhh !!! Ég var búin að gleyma hvað 16. kaflinn í greiningunni er mikil steik. Hann tengist sko ekki stærðfræði frekar en lífshlaup íslensku sauðkindarinnar tengist lögfræði. Mér er bara drullusama um hver spennan milli tveggja sammiðja kapla sem varpað er yfir í eitthvað annað plan (og þá hætta þeir sko allt í einu að vera sammiðja) er. En fleehhh... best að rumpa kaflanum eins illa af og ég get og fara svo í háttinn. Vona að ég geti sofið almennilega í kvöld. Sömu svefnerfiðleikar eru að hrjá mig eins og flesta aðra...
Sigurrósartónleikarnir voru geðveikir. Reyndar voru þeir meira en það ég bara finn ekki orð til þess að lýsa því hve góðir þeir voru... Annars held ég að ég sé orðin gegnsýrð af lærdómi. Í gær var ég að lesa mér eitthvað til um grænt svæði (sem er einhverskonar formengi fyrir tvinnfallategrun með Cauchy-reglu... fleeehh) og ég ætlaði að punkta einhvern fróðleik um það niður hjá mér. Óvart skrifaði ég samt grænt sæði og mér fannst það svo óheyrilega fyndið þegar ég komst að því að ég óttaðist tímabundið um geðheilsu mína. Föck hvað það verður djammað næstu helgi.
13.12.02
Þetta er sko miklu skemmtilegri leikur heldur en einhver aukaspyrnukeppni. Þessi leikur hefur sko allt... jólasvein, áfengi, stromp og jólagjafir. P.S. það á að nota örvarnar á lyklaborðinu, ekki músina.
12.12.02
Ég var allt í einu að muna eftir því að ég er að fara á Sigurrósartónleika á morgun. Því var ég búin að steingleyma. Úff hvað það verður kærkomin tilbreyting frá lestrinum endalausa.
Þá er eðlisefnafræðilestri mínum lokið þar til á næstu önn (en þá fer ég í EE3) og við tekur Stærðfræðigreining. Get ekki sagt að það fari um mig neinn sælustraumur við tilhugsunina... Er amk búin að byrgja mig upp af post-it miðum í öllum litum til að merkja allt draslið sem má fara með í prófið. Já og ef þið eruð að fara í próf í Odda, takið með ykkur eyrnatappa, það er nebbla kaffitería beint fyrir framan stofurnar og íslenskuspjátrungarnir eru ekkert að hafa lágt... (er ekki annars kennd íslenska í Odda?)
11.12.02
Rétt í þessu barst mér eftirfarandi tölvupóstur frá pabba: Verið með á meðan birgðir endast. Frír Bjór!!! 'Caricacell ' eru að starta nýrri markaðssetningu. Ef þú fyllir út formið á netinu munu þeir senda þér FRÍAN kassa af innfluttum 'Caricacell'. Ítalskur bjór sem bragðasta eins og Stella Artois. Þetta mun standa yfir á Íslandi út desember eða á meðan birgðir endast. Smelltu hér til að fylla út umsókn. Ég hugsaði mér nú aldeilis gott til glóðarinnar... en svo dundi áfallið yfir. Það er bannað að senda manni svona niðurdrepandi tölvupóst þegar maður er í prófum.
Ég er komin með leið á eðlisefnafræði. Hjúkket að seinna prófið er á morgun.
10.12.02
Hafiði annars einhverntímann pælt í því að sum íslensk orð eru þýdd beint frá ensku yfir á íslensku... Hér eru tvö dæmi: Walky-talky = labb-rabb [tæki] Cocktail = hanastél ég hafði aldrei fattað þetta en mér finnst þetta alveg magnað :0)
Díses... á morgun er einhver for-forsýning á lotr og miðinn kostar tvöþúsogfimmhundruðkall. Mér finnst þetta jaðra við rán þar sem sýningin er ekki í lúxussal heldur bara venjulegum, myndin verður ekki textuð og það verður ekkert hlé. Semsagt hér er um að ræða peningaplokk dauðans og jafnvel tillitsleysi dauðans líka. Hvað á fólk með litlar þvagblöðrur að gera fyrst það er ekkert hlé ? Bara halda svo mikið í sér að það fær blöðrubólgu ? Í því samhengi er gaman að velta því fyrir sér hvernig stjörnurnar í Hollywood fara að... þær mæta voða fínar á forsýningar þar sem eflaust er boðið upp á hanastél fyrir sýninu og síðan er bara ekkert hlé til að pissa hanastélinu. Þú þarft semsagt að hafa góða samkvæmisblöðru ætlirðu þér að meika það...
*Geisp* hvað ég er sybbin. Væri alveg til í að þessi próf væru búin og ég gæti sofið lengi lengi lengi...
9.12.02
Nú er úti norðanvindur Nú er hvítur Esjutindur Ef ég ætti útikindur Þá myndi ég setja þær allar inn, elsku besti vinurinn Úmbarassa úmbarassa úmbarassasa Úmbarassa úmbarassa úmbarassasa Mundi skyndilega eftir þessu kvæði sem var í miklum mætum hjá mér á mínum yngri árum. Reyndar á það alls ekki við þennan veturinn þar sem það er bara sunnanátt, rigning og allar rollur ennþá uppi á heiðum eða eitthvað... Svo eiga að vera rauð jól. Hnuss.
Ja hérna, það er bara engu líkara en að Reynir Axels lesi síðuna mína því rétt í þessu var mér að berast tilkynning um að öll gögn yrðu leyfð í prófinu, glósur, kennslubók, dæmablöð og lausnir. Fokk hvað þetta á eftir að verða erfitt próf...
Ekki skil ég hvað Reynis Axels (sem kennir okkur stærðfræðigreiningu) er að pæla. Í síðasta fyrirlestrinum skellti hann því skyndilega framan í okkur að hann væri að pæla í að hafa prófið gagnapróf (sem þýðir að prófið verður miklu erfiðara og fræðilegra). Mér fannst nú dálítið lélegt af honum að láta vita af þessu í síðasta tímanum en hann er ekki ennþá búinn að láta vita hvaða gögn hann ætlar að leyfa þannig að enginn veit neitt og flestir hafa oggulítinn tíma fyrir prófið og eru þess vegna að læra fyrir það núna. Mér finnst þetta vera hámark tilllitsleysisins. Reyndar hef ég alveg sex daga fyrir prófið og er þess vegna ekkert að æsa mig, en mér finnst samt ekki að svona ætti að vera leyfilegt í Háskóla.
8.12.02
Ég sver það sko, hvað er að fólki að hanga fyrir utan einhverja búð í einn og hálfan sólarhring og það um hávetur á norðurhveli jarðar. Allt í læ að vera aðdáandi Tolkiens en þetta er nú kannski einum of... Ég legg amk til að þetta fólk leiti sér aðstoðar.
Ég er komin með svo mikla vöðvabólgu í öxlum og hálsi að ég er með stöðugan höfuðverk. Sjálfboðaliðar í að nudda mig eru vel þegnir. Góð umbun í boði fyrir rétta einstaklinga...
Það á víst að byrja að sýna Stellu í framboði þann 19. desember og ég ætla sko pottþétt að sjá hana. Þegar ég var lítil horfði ég á Stellu í orlofi einu sinni í viku og kann hana ábyggilega ennþá utan að. Reyndar skildi ég ekki allt sem gerðist í henni, vissi tam ekkert hvað alkóhólistar væru. Fannst líklegt að það væri einhvers konar mafía af því að Lionsklúbburinn Kiddi var svo hræddur við þá...
7.12.02
Ahhhh hvað það er gott að láta skammtafræðina líða lönd og leið inn í óvirkari heilastöðvar en þær voru í í gær. Heisenberg, Hartree-Fock, Born-Oppenheimer og allir þeir... who gives. Annars er ég ýkt fúl, ég hafði hugsað mér að chilla feitt yfir Bridget Jones eða einhverju álíka en þá eru mamma og pabbi bara að horfa á eitthvað ítalskt kjaftæði. Dónaskapur og tillitsleysi segi ég nú bara.
Jæja, þá er fyrsta prófið búið og ég er bara nokkuð sátt við það. Annars var ég búin að gleyma hvað yfirsetukellingarnar eru sumar gamlar. Þær heyra svo illa að þegar þær halda að þær séu að hvísla þá eru þær í raun hálfgargandi. Svo var ein þarna sem var með Pipp-súkkulaði og annað eins skrjáfur hef ég ekki heyrt. Hún var alltaf að gæla við bréfið og tók sko ekkert tillit til okkar sem vorum í prófi. Fífl.
6.12.02
Hahaha, góð síða. Verður miklu skemmtilegri með tónlist og diskóljóstum. Tjékkit át.
5.12.02
Það er ótrúlega fyndið hvað undirmeðvitundin pælir ómeðvitað í hlutum... Í gær skildi ég ekki eitthvað dæmi í eðlisefnafræði og ákvað að pæla bara í því seinna svo ég hætti alveg að hugsa um það. Svo vaknaði ég í nótt og þurfti að fara á klósettið og haldiði ekki bara að allt í einu hafi ég fattað dæmið !!! En talandi um klósett... um daginn þá þurfti ég líka á klósettið (samt bara að pissa sko, allir vita að stelpur hafa ekki hægðir) og hvað haldiði að hafi verið ofan í klósettinu annað en sokkur ! Systur minni hafði á einhvern óskiljanlegan hátt tekist að missa sokkinn sinn ofan í klósettið og hún tók ekki einu sinni eftir því.
Svei mér þá, ég er bara ánægð með að vera í prófalestri í dag, þá hef ég amk mjög góða afsökun fyrir að stíga ekki fæti út fyrir hússins dyr í dag. Annars er þessi vetur búinn að vera alveg magnaður... kominn desember og það er bara ennþá haustveður. Eins gott að einhver fornmaðurinn skuli ekki skyndilega birtast í núinu (með hjálp tímavélar eða eitthvað sko), hann myndi ábyggilega halda að það væri september og fara upp á fjöll að smala saman kindum fyrir réttirnar...
4.12.02
STORMVIÐVÖRUN Búist er við stormi á Faxaflóasvæðinu í nótt (Reykjavík og nágrenni sko) svo allir með loftgöt, óþétta glugga, prumpufruss-glugga og annað í þeim dúr nálægt svefnrými vinsamlegast geri viðeigandi ráðstafanir.
Ég á víst að fara að búa til jólagjafaóskalista. Mig langar samt í svo mikið og veit ekki hvað ég á að óska mér mest (svo maður fái nú ekki eitthvað sem mann langaði bara smá í). Enda samt ábyggilega bara á einhverjum nýjum fötum eða eitthvað... Annars er ég alveg í skýjunum frá því í gær því ég þorði þá í fyrsta skipti í mánuð að kíkja á stöðuna mína og viti menn, ég á bara 30 þús meiri pening en ég hélt. Þetta finnst mér vera í hæsta máta dularfullt en kvarta svosem ekki. Reyndar grunar mig að hluta fjármunana megi skýra með desemberuppbót... nema að ég sé bara búin að vera svona sparsöm...
3.12.02
Það voru sko fleiri en letieðli Hauks sem storkuðu örlögum sínum í dag. Ég lét veðurguðina sko ekki bjóða próflestri mínum upp á þreytu og morkinheit sökum dapurs nætursvefns heldur skundaði í world class og tók alveg hreint massa æfingu sem varð til þess að mér tvíefldist lærdómsmóðurinn og er bara sátt við afköst dagsins. Ónefndur aðili bað mig svo að skila því til Egils að líkamsrækt, eins og hlaup snemma morguns, geta gert kraftaverk ef einhver þreyta knýr að dyrum í próflestri...
Einu sinni var oft voða loftlaust í herberginu mínu. Svo gerði pabbi loftgat frá þakinu og niður í herbergið mitt og þá hætti að vera loftlaust. Gallinn er bara sá að að þegar það er mikið rok úti þá hvín og veinar af lífs og sálar kröftum í loftgatinu góða. Í nótt var óveður og loftgatið lét öllum illum látum með þeim afleiðingum að ég svaf alveg hræðilega illa og er eins og timbruð afturganga í dag. Mér finnst lágmark að veðurguðirnir taki tillit til námsmanna (sem flestir eru jú í prófum og þurfa því góðan nætursvefn) og hafi óveður á daginn en friðsælt veður um nætur.
2.12.02
Áðan kom yfir mig yfirnáttúrulegur koffínandi sem varð til þess að ég rumpaði þrem köflum í eðlisefnafræði af á nótæm... nú þarf ég bara að reikna úr þeim og þá er ég búin með það sem ég ætlaði að gera í dag. Á eftir er ég svo að fara að gera laufabrauð og hyggst skera í þau ýmsar fallegar stærðfræðiformúlur fjölskyldunni minni til mikillar gleði. Að lokum vil ég geta þess að hefð er fyrir því frá því í fyrra að ég fái ókeypis í lúxussal á LOTR og hvet ég tilvonandi föruneyti mitt til að halda í þá skemmtilegu hefð. Það ætti ekki að kosta hvern og einn nema um 200 kall :0)
Skyndilega er úr mér allur máttur og ég vil helst fleygja mér upp í rúm, vera þar fram að 20. desember og mæta endurnærð í jólafríið...
1.12.02
Bond Jæja, þá er maður búin að sjá nýjustu Bond-myndina og hún var bara alveg ágætisafþreying en ekki meira en það (eins og venjan er reyndar með 007-myndirnar). Atriðin á Íslandi voru samt massa-kúl og þá sérstaklega eltingaleikurinn á svellinu. Mér fannst þó frekar fyndið að Kanarnir hafi valdið Ísland til að vera einhverja demantanýlendu þar sem að þetta er ábyggilega yngsta land í heimi og þess vegna ekki séns að hérna finnist demantar... en hver eins og fatti það í heimsku Ameríku ?!? Ég er samt sammála Tótu um að Pierce Brosnan sé orðinn dáldið gamall í hlutverkið en get ekki gert upp við mig hvern ætti að fá í staðinn. Rupert Everett hefur svosem Bond-lúkkið en hann er alltof mikill spjátrungur til að höndla hlutverkið...
|
Bakhliðin Hver: Edda Sif Hvar: Reykjavík Hvaðan: ½ Dani & ½ Íslendingur Hvað: Meistaranám í eðlisefnafræði Hvernig: Leit að hentugri vetnisgeymslu með kenni-legum reikningum á málmhýdríðum Hvenær: Haust '04 - Haust '06
Skólinn
Verkefni, skýrslur o.fl. Meistaraverkefni.
Myndir
Skoðaðu myndirnar mínar
Bloggarar
Lindi Dagný Egill Kristín Sigga & Maggi
Gamalt
03/01/2002 - 03/31/2002
04/01/2002 - 04/30/2002 05/01/2002 - 05/31/2002 06/01/2002 - 06/30/2002 07/01/2002 - 07/31/2002 08/01/2002 - 08/31/2002 09/01/2002 - 09/30/2002 10/01/2002 - 10/31/2002 11/01/2002 - 11/30/2002 12/01/2002 - 12/31/2002 01/01/2003 - 01/31/2003 02/01/2003 - 02/28/2003 03/01/2003 - 03/31/2003 04/01/2003 - 04/30/2003 05/01/2003 - 05/31/2003 06/01/2003 - 06/30/2003 07/01/2003 - 07/31/2003 08/01/2003 - 08/31/2003 09/01/2003 - 09/30/2003 10/01/2003 - 10/31/2003 11/01/2003 - 11/30/2003 12/01/2003 - 12/31/2003 01/01/2004 - 01/31/2004 02/01/2004 - 02/29/2004 03/01/2004 - 03/31/2004 04/01/2004 - 04/30/2004 05/01/2004 - 05/31/2004 06/01/2004 - 06/30/2004 07/01/2004 - 07/31/2004 08/01/2004 - 08/31/2004 09/01/2004 - 09/30/2004 10/01/2004 - 10/31/2004 11/01/2004 - 11/30/2004 12/01/2004 - 12/31/2004 01/01/2005 - 01/31/2005 02/01/2005 - 02/28/2005 04/01/2005 - 04/30/2005 05/01/2005 - 05/31/2005 06/01/2005 - 06/30/2005 09/01/2005 - 09/30/2005 10/01/2005 - 10/31/2005 11/01/2005 - 11/30/2005 12/01/2005 - 12/31/2005 01/01/2006 - 01/31/2006 03/01/2006 - 03/31/2006 04/01/2006 - 04/30/2006 |