!
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
... beðist er afsökunar á nördaskap ...
31.7.02

Díses... eins og einhverjir kannski vita þá var ég voða dugleg og kláraði að fara í ríkið áður en örtröð verlsunarmannahelgarinnar byrjaði. Ég hefði þó alveg getað sleppt því þar sem hún systir mín var rétt í þessu að hringja og biðja mig um að fara fyrir sig... ég sem spurði hana um helgina hvort ég ætti að kaupa eitthvað fyrir hana en hún neitaði því ákaft. Þessi ungdómur nú til dags... í alvöru sko !!! Þetta þýðir að ég þarf að fara með henni á eftir í stað þess að fara í world class eins og ég hafði planað. Ég get ekki neitað því að ég finn fyrir vott af pirringi...
Svo lítur út fyrir að Egill sé að sækjast eftir titlinum sóði allra sóða þessa dagana... á síðunni hans má nú sjá afar ógeðfellda og óskammfeilna mynd sem er í flesta staði niðrandi fyrir kassa og fíla. Ekki nóg með það heldur sendi hann mér þessa mynd í ofanálag... mér saklaustri ungri dömunni.
P.S. ég er ekki frá því að drengnum á myndinni (þ.e. þeirri seinni) svipi dálítið til hans Sigga, ætli þetta sé frændi hans ???

Ja hérna, það eru bara allir að veikjast í kringum mig. Einhver voða flensu-hálsbólga að ganga hérna í vinnunni, Viktoría er líka orðin lasin, mamma var lasin um daginn... Mér finnst þetta ekki skemmtilegt í ljósi þess að ég smitast einkar auðveldlega af svona pestum. Hversu týpískt yrði það ef ég yrði bara fárveik um helgina ?? Til þess að reyna að storka örlögunum ætla ég að byrja að taka vítamín, lýsi og sólhall á fullu. Wish me luck.

Ég fékk bíl í vinnuna í dag og í tilefni þess ákvað ég að skella mér í pilsi... Yfirleitt er ég nefnilega í buxum því að það er frekar erfitt og glennulegt að hjóla í pilsi.
Annars er ég búin að versla allt það áfengi sem fær að fljóta með mér til eyja, bætti við 4 svona píkudrykkjum og smá meiri bjór útaf miklum hópþrýstingi. Ég er samt alveg komin í gírinn fyrir helgina, ætla að pakka í kvöld og svo ætlar Kristín líka að kíkja í heimsókn og við munum búa okkur á afar hagkvæman hátt :0)
Svona til gamans tók ég svo eitthvað rapppróf og ég var víst Nas Escobar (veit ekkert hver'etta er... kannski ég ætti að spyrja Dagnýju systur ?!?)
Að lokum vil ég deila raunarsögu með lesendum... ég fór í ljós í gær með Vikku, ekki að það sé svosem frásögum færandi, nema bara hvað... hvaldiði að ég hafi ekki bara brunnið á rassinum !!! Er með svona rauðan hring, það er voða asnaelgt. Mér fannst það samt svo fyndið að ég fór í g-streng og skoðaði í spegli... Skemmti mér konunglega yfir hörmungunum :0)

30.7.02

Ég er búin að vera alveg ótrúlega þreytt upp á síðkastið og til að vinna bug á þeirri hvimleiðu tilfinningu ákvað ég að fara snemma að sofa í gær. Var komin upp í rúm um tólf og átti ekki í teljandi erfiðleikum með að sofna. Hins vegar vaknaði ég rétt upp úr sjö og gat bara ekki sofnað aftur þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Nú heldur þú líklega lesandi góður að ástæðan sé að ég hafi bara verið útsofin. Því er þó ver og miður þar sem ég er búin að vera að leka niður af þreytu í allan dag. Ætli ég sé ómeðvitaður masókisti ?? Finnst mér svona gott vont að vera sybbin allan daginn ?? Ég hef nú ekki orðið vör við það en eitthvað hlýtur að valda þessum fáránlegu svefnvenjum mínum...

29.7.02

Úff, ég var ýkt dugleg í world class áðan, byrjaði á að hlaupa, lyfti og tók svo brennslu á krossara eftir á... enda skalf ég öll og titraði eins og parkinsonsjúklingur þegar ég var að hjóla heim. Ég gleymdi líka að geta þess í pistlinum um helgardjammið að það ætlaði ungur maður að ráðast á mig á Hverfisbarnum... Hvert er heimurinn að fara ???

Kíkti á djammið á laugardagskvöldið ásamt nokkrum MR-gellum. Ekki er hægt að segja annað en að vel hafi tekist til því ég skreið heim upp úr 6. Fyrst var það partý, svo Hverfisbarinn og loks Glaumbar. Á Hverfisbarnum stal hrísgrjón (þ.e. japani eða kínverji) senunni... Hann hafði greinilega heyrt orðróm um að íslenskt kvenfólk sé frekar lauslátt og hugsaði sér gott til glóðarinnar. Hann var heldur ekkert að tvínóna við hlutina heldur vatt sér upp að henni Gyðu litlu og sagði orðrétt: "I'm so horny" og bjóst greinilega við að þessi eðal-pick-öpp lína myndi bræða hana á staðnum. Ég missti hálfvegis að því hvað gerðist í framhaldinu því að ég kunni ekki við að hlæja beint upp í opið geðið á greyinu og sneri mér þar af leiðandi við... Hann flúði þó fljótlega af vettvangi þegar hann sá að þessi aðferð var ekkert að virka. Á Glaumbar hittum við svo eitthvað fífl sem heimtaði að splæsa á okkur bjór, og að sjálfsögðu þáðum við það... vissum ekki alveg hvernig væri best að losna við hann eftir það svo við eiginlega hlupum bara í burtu...
Þetta var allavegana í flesta staði vel heppnað kvöld (að frátalinni afar langri og dularfullri salernisferð ákveðins aðila sem ekki verður nafngreindur hér).
Í gær var svo matarboð heima og þar sem boðið var upp á ekta danskan frokost þá þurfti ég að standa í eldhúsinu allan daginn og undirbúa... Það var samt þess virði þar sem ég elllssska frokost.
Ég er bara ekki frá því að ég sé dálítið eftir mig eftir helgina...

27.7.02

Vaknaði klukkan hálftíu. Var mætt í ríkið klukkan tíu með það í hyggju að ná að versla í friði þær veigar sem munu fylgja mér til Eyja. En auðvitað féll sú ráðagerð mín um sjálfa sig þar sem búðin opnaði ekki fyrr en ellefu... Vafraði þess vegna um tóma Kringluna til korter í ellefu en þá var ég búin að skoða allt sem mér kom til hugar. Settist þá fyrir utan Vínbúðina og beið eftir að hún opnaði ásamt uþb tylft róna sem titruðu og skulfu við það eitt að horfa á allar áfengisflöskurnar í hillunum. Það var sérstök lífsreynsla... Annars kostuðu mínar veigar einungis 6000 kr sem er einmitt 42 % af Sigga kostnaði !!! Lítur út fyrir að ég muni hljóta titilinn sparibaukur vikunnar.

26.7.02

Hvað er málið með netheima ? Eru þeir að fara til fjandans ?? Bloggerinn er óþolandi þessa dagana og Blogtrackerinn er týndur og tröllum gefinn þó það sé búið að gefa út fyrir löngu síðan að "hann sé alveg að koma aftur". Vill einhver plís verka þetta ???

Mér finnst ekkert spes þegar gaurar sem eru jafngamlir mér eða jafnvel eldri kalla mig mömmuna sína. Hvað knýr þá til að gera það ??

Í dag er gaman að vera til því ég er á bíl í vinnunni og get þess vegna farið og fengið mér eitthvað gott í hádeginu. Ég er að hugsa um að fá mér salatbar í fyrrverandi Nýkaupum í Kringlunni og ég hlakka mikið til. Hvur veit nema það læðist eitt stykki súperdós (Diet að sjálfsögðu) með í körfuna...
Óneitanlega skyggir brottkast úr herbergi á þessa taumlausu gleði en ég læt þó ekki bugast heldur bít á jaxlinn eins og sönnum víkingi sæmir.

25.7.02

Núna er bara rúmlega hálftími eftir af vinnudeginum og að honum liðnum mun ég bruna heim á leið á rauða hjólinu mínu því til stendur að lita á mér hárið. Þó verður ekki mikið um sviptingar því einungis verður notast við ljóst strípuefni. Svo er nokkuð ljóst að ég þarf að fara að breyta útlitinu á síðunni minni þar sem allir virðast vera að því og ekki vil ég vera útundan... Ég geri samt sennilega ekkert í þeim málum fyrr en eftir Eyjar því Danirnir koma á morgun....

Í tilefni þess að ég er með vott af leti í mér í dag hef ég verið að velta vöngum yfir hvað fólk muni bralla að kvöldi Dómsdags
Siggi gengst loks við því að vera rauðhærður þar sem lítill fugl hvíslaði því að honum að Írar skipi sérstakan heiðursstall í Lan-liði himnaríkis.
Egill (aka lítill fugl) spilar Pláneturnar eftir Jón Leifs nakinn á píanóið og það hlakkar í honum því honum tókst að blekkja Sigga til að koma út úr rauðhærðra-skápnum. Hann er fullviss um að komast til himnaríkis því let's face it ... hann er listamaður.
Haukur eyðir kvöldinu fyrir framan spegilinn sinn með gatinu... hlustar á vel valin píkupoppslög og bjallar aðeins í Becks vin sinn (they are like this close). Haukur er með eindæmum greindur maður og því VEIT hann að hann kemst til himna. Þar bíða hans meiraðsegja 2 kippur af ísköldum Carlsberg...
Gunnar í Krossinum kyrjar enn Hallelúja með gítarinn sinn. Vottarnir gera áhlaup á heilu hverfin í von um að frelsa nokkra villta sauði fyrir endalokin. Sjálfstæðismenn fórna Dabba Kóngi í von um himnaríkisvist og Bush býr til gervi-Osama-Bin-Laden-lík svo hann muni "er fram líða stundir" verða einn merkasti maður heimssögunnar því hann vann stríðið gegn hryðjuverkum.
Ég á eftir að hugsa betur um hvað hitt liðið tekur sér fyrir hendur en það verður eflaust eitthvað sóðalegt....
Ekki verður gefið upp hvað ég hef í hyggju fyrir sjálfa mig....

Judgement Day
Nú fer hver að verða síðastur til að sletta úr klaufunum þar sem nýjustu fregnir herma að risa loftsteinn muni falla á jörðina eftir 17 ár (hjúkkit að ég ekki sleppt úr helgi í sumar...). Vísindamenn segja þó allar líkur á að hann muni fara fram hjá plánetu vorri en orðrómurinn á götunni er að um 10 % líkur séu á árekstri. Mér finnst það nú bara ágætislíkur en þær munu án efa fara fallandi því telja má víst að George Bush Bandaríkjaforseti og öðlingur með meiru hefji stríð gegn loftsteinaárásum til að auka vinsældir sínar enn frekar meðal þegna sinna. Þannig gæti ameríski nútímadraumur Kananna ræst... þeir bjarga öllum heiminum frá aðvofandi hættum. Að minnsta kosti munu þeir gera allt sem í sínu valdi stendur til að beina braut lofsteinsins frá USA. Hvort ætli þeir myndu frekar senda hann á Rússland eða Kína ef hann þyrfti óhjákvæmilega að lenda einhversstaðar á jörðinni ?? (Hmmm... kannski er ég búin að horfa á of mikið af bandarískum hetju- og stríðsmyndum)
Annars ætla ég að skella mér á MIB 2 í kvöld og slefa yfir yfirhönkinum Will Smith (hann er ofurkúl í þessum jakkafötum sínum). Svo vil ég bara segja við ykkur verkfræðigimp plús Hauk að þið eruð bara hundleiðinleg... í síðustu viku hófst keppni um aukafrímiðann minn á myndina en ekkert ykkar tók þátt. Þetta er sko geymt en ekki gleymt !!!

24.7.02

Loksins er ég búin að eignast öll klassísku Bubba-lögin á Cd. Er búin að vera í þvílíkum fíling í vinnunni í dag og skyndilega finnst mér ekkert að því að vera þrífibuskan hennar mömmu í dag og á morgun því hey... ég get hlustað á safnið á meðan. Við Siggi sáum um lagaval en hann sá einn um að brenna diskana og kann ég honum bestu þakkir fyrir.
Svo verð ég nú að segja að þetta hlýtur að vera hámark greddunnar og bjartsýninnar... annars vissi ég ekki að það væru til samkynhneigðar beljur (þ.e. að undanskilnum meðlimum í Bríet).

Það lítur út fyrir að gleði lífs míns sé uppurin í bili því allt stefnir í að ég þurfi að vera heima að taka til, þrífa, reyta arfa og ýmislegt fleira í þeim dúr það sem eftir lifir viku. Ekki nóg með það heldur þarf ég að yfirgefa drottningarsvítu mína... allt út af 2 dönskum ættingjum sem eru að koma í 10 daga heimsókn. Líklega mun ég ekki taka gleði mína á ný fyrr en um helgina en þá er einmitt stefnt á að bralla eitthvað skemmtilegt eins og að kíkja í bæinn að loknu partýi miklu...
Áðan tók ég Who is your daddy prófið og hver haldiði að útkoman hafi verið... Faðir minn er enginn annar en Darth Vader, sem er einmitt svalasta persóna kvikmyndasögunnar. Ekki amalegt það.
Svo er greinilega kominn tími til að Maggi rifji upp menntaskólamálfræðina... skepna er kvenkynsorð og því myndi maður segja hún skepnan óháð hvaða orð fylgir á eftir. Síðan er ekki ufsilon í verkaskipting. Að lokum er rétt að geta þess að það er bannað að kalla mig niðrandi nöfnum.

23.7.02

Hahahaha.... ertu þolinmóð(ur) ??

My ass að kindurnar hafi verið að flýja undan úlfahópi... Þær hafa bókað bara verið búnar að fá nóg af rollulífinu. Ég myndi sko ábyggilega fleygja mér fram af bjargi ef ég væri kind.

Ja hérna... undarlegir hlutir virðast vera á seyði. Haldiði ekki að skepnan hún Magnús ætli að skella sér til Eyja og segja bara föck fótboltinn !!! Ég verð nú að segja að þið hin ættuð taka ykkur hann til fyrirmyndar. Reyndar ættuð þið enn frekar að taka ykkur mig, Kristínu og Sigga til fyrirmyndar þar sem við leyfðum okkur aldrei að velkjast í höndum vafans um hvort skella ætti sér á Þjóðhátíð eður ei... (reyndar tók Siggi smá efakast einhverntímann en var nú ekki lengi að hrista það af sér).
Annars er ég dálítið sybbin í dag, veit ekki afhverju... eða jú annars, mig dreymdi að ég væri að fljúga í svona lítilli röraflugvél eins og ég þarf að fara í frá Bakka og ég var ógeðslega hrædd. Hef greinilega ekki hvílst nógu vel. Læt það nú samt ekki á mig fá því að það er sko saumó í kvöld og hvað er meira hressandi en kökur, kók og kjaftasögur ??? (Tókuði eftir stuðlunum í þessari setningu ?)

i am



what sexual performer are you?

I object ....

22.7.02

Fokkings Drasl !!!
Tölvan krassar á 5 mín fresti... það er ógeðslega pirrandi og þess vegna er ég í vondu skapi núna. Ekki hringja í mig næsta klukkutímann nema þú sért masókisti !!!
P.S. Mér leiðist... mig langar til sólarlanda.

Ja hérna... það hefur greinilega verið gúrkutíð um helgina í fréttnæmum atburðum !!!
Hvenær á svo eiginlega að opna blogtrackerinn aftur, það er óþolandi að þurfa alltaf að fletta í gegnum allar síðurnar til að gá hvort einhverjar hafa verið uppfærðar.... svo eruð þið ógisslega löt við að blogga. Þið ættuð að skammast ykkar.

Helgin búin, ný vinnuvika byrjuð og það er ekkert spes. Svo er ennþá minna spes að nú er einungis rúmur mánuður eftir af sumarfríinu, það er alveg lygilegt hvað sumarið líður alltaf fljótt. Annars var bara svaka stuð á laugardaginn, fórum fyrst á Tapasbarinn og svo á Hverfisbarinn og mæli ég eindregið með báðum stöðunum. Undirbúningur fyrir Eyjar 2002 hefst formlega í kvöld en þá munu ég, Kristín og Siggi hittast á ótilteknum stað og skrifa Stuð-Stuð-Stuð-diska og hvur veit nema hugað verði að Etanólkaupum....
Fjölskylda mín gerir mér sífellt ljósar að ég megi nú fara að huga að því að flytja að heiman. Dagný systir spyr í hverri viku hvenær ég ætli að drullast út því hún girnist herbergið mitt ákaft (jaðrar stundum við áráttu). Pabbi tilkynnti mér um daginn að hann gæti sko reddað mér íbúð á besta stað í miðbænum afar ódýrt og svo þeytti mamma punktinum yfir i-ið í gær þegar hún tjáði mér að ég þyrfti að flytja í Auðar herbergi frá og með næsta fimmtudegi og fram yfir verslunarmannahelgi því von er á dönskum ættingja sem á að fá afnot af mínu herbergi. Ég verð nú að segja að mér finnst engin hemja að koma svona fram við frumburð og stolt fjölskyldunnar.... Fööööck !!!

20.7.02

Mmmmmmm..... er bara nývöknuð á þessum degi laugar og stefni að því að gera ekki neitt af viti í dag (í gær var ég búin að plana hið gagnstæða en ég bara nenni engu). Í kvöld er ég samt að fara á Tapasbarinn með nokkrum foxy MR-gellum en þar höfum við hugsað okkur að eta, drekka og hafa gaman. Stefnan verður svo tekin á miðbæinn og það kæmi mér ekki á óvart ef að Hverfisbarinn yrði fyrir valinu.

19.7.02

Pönkgellur mega ekki syngja Madonnu lög !!!!
Haldiði ekki að einhver belja sé bara búin að slá í gegn með hinu ómþýða lagi "Papa don't preach" með Madonnu. Svosem ekki mikið út á það að setja nema að hún er búin að breyta því í rokk slash pönklag ... það ætti að vera gagnstætt alþjóðalögum. Svo líkar mér heldur ekki að Britney Spears syngi nýja Austin Powers lagið... það er ýkt tussulegt (held samt að það eigi að vera eitthvað sexý... mér finnst hrognið úr Seven (feiti kallinn sem var drepinn... er með svo miklar fellingar að hann var bara eins og ofvaxið hrogn) vera álíka sexý og þetta lag+myndband).

YEAH BABY, YEAH !!!
Ég var að vinna 2 miða á MIIB (Men in Black nr. 2 fyrir þá sem fatta ekki). Nú er bara spurning hverjum ég ætti að bjóða mér... fer eftir því hver verður góður við mig á næstu dögum...

Jet Black Joe
Eins og áður hefur komið fram fórum ég, Kristín og Siggi á JBJ-tónleika í gærkvöldi. Vorum við öll sammála um mikið ágæti og skemmtanagildi þeirra. Í stuttu máli sagt þá var bara massagaman. Því miður voru þó nokkur atriði sem skyggðu pínku á hina taumlausu gleði sem réð ríkjum á tónleikunum...
Í fyrsta lagi þurftum við að standa svo ógisslega lengi að okkur var orðið massa illt í bakinu þegar yfir lauk. Mitt mat er þó að þetta hafi alltsaman verið vel kvalarinnar virði.
Í annan stað þá var afar pirrandi par mjög nálægt okkur og mun ég nú fjalla lítillega um þau:
Í upphafi voru þau í einhverjum svaka erótískum ham því þau bara gátu ekki séð hvort annað í friði og voru all over pe pleis sleikjandi og slefandi á hvort annað. Ég verð nú að segja að mér var hætt að standa á sama á tímabili því að maður sá eiginlega ekki fyrir endann á þessu og voru uppi vangaveltur um hve langt þau myndu ganga.
Skyndilega var þó eins og dregið væri fyrir sólu ástarbríma karlmannsins því að allt í einu varð hann bara brjálað fúll og byrjaði að henda kvenmanninum frá sér og var það henni lítið að skapi svo vægt sé til orða tekið. Hófst nú mikill darraðadans hjá þeim, gellan vildi ekki hætta að sleikja kallinn en hann var sko ekki á þeim buxunum að leyfa henni það og henti henni sífellt frá sér nærstöddum til mikils ama (gellan datt alltaf á alla í kring og hún var ekkert svakalega létt sko!!!). Að lokum var henni þó nóg boðið og hún byrjaði að henda honum líka í burtu, kastaði svo hvíta jakkanum sínum í gólfið og ætlaðist til að gaurinn myndi ná í hann. Þegar hann varð ekki við óskinni strunsaði hún í burtu og sló til allra sem urðu á vegi hennar (held að sumir hafi lamið hana til baka). Nærstaddir voru afar glaðir með þetta því flestir héldu að nú gætu þeir fylgst með tónleikunum án þess að láta þetta par trufla sig. Þannig fór það nú ekki því að einungis nokkrum mínútum seinna mætti gellan aftur með blöndu af greddu- og sækópaþþglampa í augunum. Hófust hrindingarnar aftur (samt fékk hún að sleikja hann í smástund áður) ... hún fór enn á ný í fýlu og allt fór á sömu leið og áður, hún strunsaði í burtu en mætti aftur galvösk til leiks. Gekk þetta svona í nokkra stund, þangað til nærstaddir voru komnir með nóg af að láta feita fitubollu lemja sig og ég held að henni hafi verið hent í burtu á endanum þó ég muni það ekki alveg því ég var náttla líka að horfa á hljómsveitina.
Allavegana vona ég að þetta par verði ekki aftur á vegi mínum því þá mun ég taka til minna ráða. En semsagt, eðaltónleikar og þið sem mættuð ekki eruð ýkt óheppin.

Kíkti á Jet Black Joe á Nasa í gær ásamt Sigga og Kristínu en ég ætla ekki að blogga um það fyrr en seinna í dag því ég svaf yfir mig og mætti hálftíma of seint svo ég þarf að vinna dáldið núna. But believe me... there is plenty to tell. Annars hef ég uppgötvað að Egill lifir tvöföldu lífi. Hann hefur unnið í álverinu síðan í mars en taldi okkur trú um að hann hefði byrjað í maí.... en honum tekst ekki lengur að blekkja mig því Ég Veit (eins og margoft hefur komið fram) !!!
Ef ykkur langar svo að prufa eitthvað fönkí höstltrikk þá held ég að þetta sé málið !!!

18.7.02

JJJÍÍÍÍHHHHAAA !!!
Bloggerinn loksins vaknaður af dvala (var eitthvað bil...). Ég er búin að hafa svo rosalega mikið að segja í dag en gat bara ekki komið neinu frá mér ... það var ekkert gaman. Það myndi greinilega ekki henta mér að vera listamaður, eru þeir ekki alltaf í svona ritkreppum (man ekki rétta orðið), þ.e. hafa fullt að segja en geta ekki komið því frá mér. Hjúkkit að ég er ekki eins og Egill !!!
Annars er þetta búinn að vera nokkuð ljúfur dagur í vinnunni og stefnir í enn ljúfara kvöld, því að ég og Stína Stuð (aka Kristín Vala) ætlum á Nasa að hlusta á Jet Black Joe og vonumst við að sjálfsögðu til að hitta á hönkamafíu þar.

No more bitchfights in the morning !!!
Yesss... loksins er draumur minn orðinn að veruleika... mitt eigið baðherbergi. Nú þarf ég ekki lengur að berja löngum stundum á baðherbergisdyrnar niðri bara til að bursta tennurnar eða eitthvað. Ég get nefnilega sagt ykkur að það er pein in ðí ass að eiga litla verslómær fyrir systur. Hún vaknar fyrir allar aldir, læsir sig inni á baði og kemur vart út allan daginn (nema til að fara í skólann og vinnuna). En nú þarf ég ekki lengur að berja á dyrnar og öskra mig hása... ég á mitt eigið baðherbergi, liggaliggalái !!!



You've got a lot to say, and you'll talk until it's all out, and for

some reason, no one tries to shut you up. I guess you actually

make sense most of the time. Almost everyone likes you, and

it's not just because you're cheap. Haha. Cheap as in thrifty, of

course. You get a bit depressed now and then, but who doesn't?

You seem to have a little anger built up inside, but who doesn't?

You like to stare at people through their bedroom window while

they're changing, but who doesn't? You sick bastard.
Which Smashing Pumpkins album are you?


Hmmm.... ég er nokkuð sátt við niðurstöðuna nema síðustu setninguna. Ég er sko enginn gluggagægir !!! Þó að ég hafi óvart séð einhvern allsberann gaur um daginn heima hjá sér þá telst það ekki með því hann stóð bara út í glugga og ég var bara að horfa út á götu !!!!

17.7.02

Ertu stundum einmana á síðkvöldum ?? Áttu erfitt að ná sambandi við fólk ?? Hvernig væri þá að skella sér í bað með Jesú ?? Þér mun bókað líða betur á eftir.

Sko... ég er nú enginn öfgakenndur feministi. Hér með er það sannað !!


I'm getting there. I don't suck, but I've got a ways to go.

Not too bad, but you can do better. Keep working on it- maybe try kicking a few guys wherever you want to, then start lighting them on fire. Slow and steady wins the race, okay? You've got a long way to go, but I think you'll survive.


Ja hérna hér...
Ákvað að taka mér smá pásu frá erfiðisvinnunni minni og vafra aðeins á netinu. Haldiði ekki að ég rekist á nokkur skemmtileg komment sem voru til þess að sannfæra mig endanlega um að fótboltamenn stíga sko sjaldan í vitið. Hef ég ákveðið að deila snilldninni með ykkur:

'My parents have been there for me, ever since I was about 7.'
David Beckham (hvar voru þau fram að því ???)

'If you don't believe you can win, there is no point in getting out of bed
at the end of the day.'
Neville Southall (ehh... einhver þversögn í þessu finnst mér)

'I've had 14 bookings this season - 8 of which were my fault, but 7 of
which were disputable.'
Paul Gascoigne (Lærðu að reikna, reyndar fattaði ég þetta ekki fyrr en Siggi benti mér á að 8 + 7 = 15... ég þarf greinilega líka að læra að reikna)

'I'd like to play for an Italian club, like Barcelona.'
Mark Draper (Síðast þegar ég vissi var Barcelona á Spáni)

'Without being too harsh on David Beckham, he cost us the match.'
Ian Wright (Hvernig skyldi "harsh" vera skilgreint?)



Which Sex and the City Player Are You? Find out @ She's Crafty

Sko... ég sagði að ég væri Carrie :0)
Annars er mér geðveikt illt í öðru auganu, ætli það stafi af of miklu Friends-glápi í gær ?? Æi samt örugglega ekki, ef ég fengi alltaf illt í augun við að horfa á 8 þætti af friends í einni striklotu þá væri ég ábyggilega orðin blind....

16.7.02

Ef þetta er ekki kúl próf þá veit ég ekki hvað....



Take the Which Madonna Video Are You? Quiz





Take the Which Madonna Video Are You? Quiz



Fyndið að fá tvær niðurstöður...

Ég er búin að vera í svo miklum Pixies fíling í gær og í dag að ég bara held að leitun sé að öðru eins. Ég er sko að fara að fá mér Best Of disk með þeim ef hann er til. Annars fer óðfluga að styttast í Eyjar og er ekkert nema gott um það að segja. Það er meira að segja búið að boða bekkjarpartý helgina fyrir og má líta á það sem nokkurs konar upphitun.... eða eitthvað.
Svo ætlum við Kristín að þykjast vera menningarvitar á fimmtudaginn (semsagt wannabe Egill) því við ætlum á Jet Black Joe. Held að Siggi ætli líka að vera memm... hann er greinilega líka með minnimáttarkennd gagnvart hinum merka eglíska listamanni.

Æ, æ.... aumingja fatlafólin að geta ekki fengið lapdans. Ætli ástandið sé jafnslæmt hér í borg ???
Svo er ég ógisslega þreytt af því að ég var andvaka í nótt. Ég hata að vera andvaka !!!

15.7.02

Hvað er eiginlega málið með kalla sem fara alltaf á kvennaklósett ?!? Orðrómurinn á götunni er að það sé vegna þess að þau eru alltaf miklu hreinlegri... sem er auðvitað rétt. En þau verða ekki lengi hreinni og fínni ef einhverjir gaurar eru alltaf að míga þar því að þeir eru sjaldnast mjög hittnir... og ég fíla sko ekki að þurfa að vaða í hlandi þegar ég er að fara að pissa, sérstaklega ekki þegar ég er í nýju diesel skónum mínum. Hættiði þessu eða það er mér að mæta. Ég ætla að fara að vakta klósettin hérna í vinnunni á næstunni og horfa svo grimm á alla karlanna sem laumast inn á kvennaklósettið.... það ætti að kenna þeim lexíu!!!

Fann mig knúna til að setja nokkrar myndir af sæta leikaranum sem heitir víst Ryan Gosling... verði ykkur að góðu stúlkur



Mér finnst það jaðra við ósvífni að bjóða upp á september- og októberveður í júlí. Vill einhver vinsamlegast ganga í málið og redda þessu ?!?
Viktoría kemur greinilega af fjöllum í umræðum um hálsa svo þetta hlýtur að vera einhver misskilningur hjá mér... kannski mig hafi bara dreymt hálsinn... En ég er sammála henni um hvað einn gaurinn í söndur bullock myndinni var flottur..... Ég á bara ekki orð til þess að lýsa honum svo FÖÖÖÖCCCKKKK og ÁÁÁÁ-IIIIII verða að duga. Hann slær bara alla aðra út held ég.... Ég er að pæla í að hætta í verkfræði og gerast grúppían hans og private-stalker..... (eiga kannski hljómsveitargaurar bara grúppíur og ekki leikarar... ég kann nebbla ekkert á svona).

Undur og stórmerki eru að gerast... mér er KALT í vinnunni en eins og glöggir lesendur og áheyrendur (útilokar líklega alla karlmenn) vita þá er alltaf sjúklega heitt hérna. En ég held þetta sé af því að ég er í rennandi blautum buxum... ENNÞÁ. Samt er bolurinn hættur að vera gegnsær. Jibbýýýý :0)
Svo eru þetta óneitanlega gleðitíðindi mánaðarins.... ef ekki bara ársins. Var að tékka á hlutfalli kynjana í Danmörku og haldiði ekki bara að karlmenn séu í meirihluta í svo til öllum aldursflokkum (amk öllum þeim sem skipta mig máli). Nú er ég ennþá spenntari að fara til Danmerkur eftir einungis tvö ár.... Det bliver sgu bare sjovt...

Ekki byrjar vikan vel... ég hjólaði í vinnuna eins og venjulega og leist bara nokkuð vel á veðrið þegar ég lagði af stað. En um leið og ég kom upp á Bústaðarveg þá var eins og veðurguðirnir hafi skrúfað frá rigningu dauðans og á innan við mínútu varð ég fokking soaking !!! Ég hjólaði svo í þessu úrhelli alla leiðina niðrí bæ og núna er ég í rennandi blautum buxum og hvíti bolurinn minn blotnaði enn á ný í gegnum jakkann minn svo hann er orðinn gegnsær.... Díses segi ég nú bara (sérstaklega fyrir Hauk sko) !!!
Vil þó þakka Sigga fyrir að hafa skilið alla diskana sína eftir hjá mér á laugardaginn því að nr. 1 bjargaði mér frá því að verða bara bókstaflega úti í rigningunni (ég var nebbla með svona ferðageislaspilara.... algjör gella).
Svo fá allir þeir sem tóku þátt í skemmtilegheitum laugardagsins bestu þakkir fyrir.... þetta var bara heavy gaman !! (Óneitanlega gleymdu sumir sér þó meira í taumlaustri gleði eins og sjá má á ákveðnum hálsi.... segi ekki meir).



Which Middle Earth race are you? go to:the quiz!

12.7.02





I'm completely down-to-earth!

Find your soul type
at kelly.moranweb.com.


Var að lesa á huga að orðið Racecar er alveg eins aftur á bak og áfram... dáldið kúl finnst mér. En ég verð samt að segja að sá sem fattaði þetta á sorglegra líf en meiraðsegja ég !!! Annars er ég að deyja úr leiðindum og þreytu og mig langar heim að lúlla eða chilla yfir eins og 3 - 4 Friends þáttum. Ég er samt ekkert að kafna úr hita í vinnunni í dag af því að ég fór í pilsi. Sem betur fer er samt skilrúm fyrir framan borðið mitt því að ég á það til að sitja ekkert alltof kvenlega við tölvuna og þá myndi bara sjást í nærurnar mínar... Góða helgi krúttin mín.

HAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHA
Vá hvað þetta viðtal sem Ali G tók við Elton John mun bjarga mér í gegnum þennan dag vinnu !!! (Er sko líka að fara að vinna í kvöld). Þetta er hreint út sagt drepfyndið (þó ég skilji fullvel að Eltoninn hafi strunsað út þarna í lokinn).

Ég er farin að halda að ég sé einhverf eða eitthvað. Ég bara get ekki vaknað á morgnana. Ef ég byggi ekki ennþá á Hótel Múttu þá held ég að ég myndi bara sofa allan daginn. Þó að vekjaraklukkan hringi þá bara fatta ég ekki að ég eigi að fara á fætur heldur snooza þangað til að einhver kemur og spyr hvort ég þurfi ekki að vakna... Ætli þetta sé fyrsta stigs Alzheimer ???
Svo kom ég sjálfri mér gjörsamlega í opna skjöldu í gær því allt í einu varð mér ljóst að mig langaði bara pínku á Sandaragleðina.... (ætli það sé annars stigs Alzheimer ???). Afi er nebbla alveg rosa góður guide og er með einhvern túr um svæðið sem mig langaði að fara í... ég var að því komin að skella mér eina nótt og koma svo líklega aftur í bæinn á morgun einhvern tímann en þá nennti systir mín ekki með (í alvöru sko... þessu ungdómur nú til dags). Þar sem ég er ekki mikið fyrir að fara í eins manns bíltúr fram og til baka á Snæfellsnes þá hætti ég líka við. Veit ekki alveg hvort það er af hinu góða eða ekki.

11.7.02

Ég er Angelina Jolie...


Which Angelina Are You?

Var að lesa á katrin.is að gaurar í World Class séu með stór typpi. Þetta finnst mér vera miklar gleðifréttir því að ég æfi einmitt í þar. Nú fer ég ekki aftur að skokka í Fossvogsdalnum... ekki eru stór typpi þar (reyndar er eitt listaverk við Fossvogsskóla sem með góðum vilja mætti líta á sem reðurtákn). Ekki búast við að sjá mikið af mér á næstunni... verð í heita pottinum í World Class....
En svona til að gleðja strákana sem æfa í WC má líka geta þess að stór hluti af stelpunum (konunum) þar er með risabrjóst (samt mun ég seint teljast til þess hóps sko). Það er alltaf ótrúlega fyndið að fylgjast þeim sem eru nýbúnar að stöffa sig af sílikoni, þær geta ekki hætt að horfa á brjóstin á sjálfum sér í speglinum...
En ég efast samt um að gaurarnir séu búnir að stöffa sílikoni í tillana sína eins og gellurnar eru búnar að gera í brjóstin sín !!! Þess vegna eru stóru typpin þeirra meiri gleðifregnir en stóru sílíkon-brjóstin á gellunum.
Ég er fullviss um að þessar fréttir (þ.e. þessar um gaurana) verði til þess að bæði Viktoría og Kristín (og etv fleiri) muni fjárfesta í Klassakorti fyrir næsta vetur (þær eru eitthvað að þykjast ætla að æfa annars staðar, ég veit samt að stóru typpin munu lokka þær í world class).

Bíddu er fólk vangefið eða eitthvað ?!? Aumingja Eric Clapton kemur hingað til að veiða sér fisk í soðið og slappa af einhvers staðar í friði fyrir paparazzíum útlandana. En hverju taka Íslendingar upp á öðru en að elta hann á röndum... Díses.... þessir Íslendingar eru ekki eðlilegir stundum (ég er sko bara hálfur Íslendingur svo ég er alveg eðlileg). Rétt í þessu var ég svo að hlusta á útvarpið og þá kemur einhver svona Trailer: "Að auglýsingum loknum mun leitin að Clapton halda áfram, hann virðist hafa stungið af og er hvergi finnanlegur ...blablalbla ... (fullt af viðtölum við gellur sem vinna í sjoppum úti á landi og segjast ekki hafa séð hann)...."
Ekki finnst mér skrýtið að hann hafi stungið þessi fíflalælti af. Aumingja grey maðurinn segi ég nú bara !!!

Fór út að skokka í Fossvogsdalnum í gær eftir vinnu og váááááá hvað veðrið var gott. Ég var bara á hjólabuxum og e-m litlum bol og ég var bókstaflega að kafna. Þetta var bara eins og að hlaupa í úglöndum !!! Svo ætlaði ég að fara í World Class í morgun en ég gat ekki vaknað, svaf meira að segja yfir mig og samt fór ég snemma að sofa í gær. Þarf að byrja að taka lýsi eða eitthvað. Amk gengur þetta ekki svona lengur !!!

10.7.02

Ich bin eine Wildkätchen.... MIAUWWW !!! Batman muss sich aufpassen denn ich bin hier !!!


i'm a cat.what kinda pet are you?
quiz made by muna.

Fór til Kíra (Kírópraktor, hann heitir Bergur og er með eindæmum vel skapaður maður) í morgun. Hann hnykkti fjórum sinnum og núna er ég ýkt aum í bakinu og hálsinum og gott ef hausinn á mér er ekki pínku skakkur...
Ættingjar mínir hafa sætt sig við að ég muni ekki mæta á Sandaragleði á Hellissandi um helgina heldur muni miðbær Reykjavíkur fá að vera nærveru minnar aðnjótandi (þó líklega bara aðra nóttina, þarf aðeins að fara að chilla á djamminu). Svo verður eflaust eitthvað skemmtilegt baukað í kvöld :0)
Stundum getur lífið bara verið jafnyndislegt og það getur verið tík (eða smákaka) !!!
P.S. Allir sem fara ekki til Eyja eru hommar !!!

Ég mun aldrei aftur strippa !!!
Sko, ég á það til að vera eitthvað að strípalingast fyrir framan glugga (samt alls ekki af sýndarþörf eða perraskap !! ... nóvei !!). Málið er nefnilega það að stundum þegar maður kemur tam úr sturtu og hefur gleymt að taka til nærföt þá er mar knúinn til að hlaupa alla leið upp í herbergi (dáldið langt sko) og leita að þeim (nærfötunum) og þá óhjákvæmilega hleypur maður framhjá gluggum... Svo líka stundum þegar maður er að fara að lúlla þá er maður bara á nærunum og man allt í einu að mar hafi gleymt að draga fyrir gluggana svo það þarf að redda því og enginn heilvita manneskja myndi nenna að klæða sig aftur bara til að draga fyrir !!! Í gegnum tíðina hafa nokkrir hneykslast á þessari áráttu minni en mín mótrök voru þau að ef einhver myndi sjá mig þá væri það af því að sá hinn sami væri að glápa inn um gluggana heima hjá mér, það væri innrás á friðhelgi einkalífsins og þess vegna væri þetta allt hans eigin sök !!! Nú hef ég hins vegar skipt um skoðun. Í gær sat ég í mestu makindum inni í borðstofu og var að borða súkkulaðiköku (ekki að það sé frásögum færandi) en svo er mér litið út um gluggan og hvað haldiði að ég sjái annað en einhvern gaur hinumegin við götun bara á sprellanum úti í glugga (hann var sko ábyggilega að draga fyrir eða eitthva !!). Ég fór gjörsamlega í kerfi og í kjölfarið svegldist mér á súkkulaðikökunni (það var það sem fyllti mælinn).... þess vegna hef ég ákveðið að klæða mig alltaf í þegar ég gleymi að draga fyrir og láta einhvern annan finna nærfötin mín ef ég gleymi þeim þegar ég fer í sturtu !!!

9.7.02

Undur og stórmerki hafa gerst.... áðan kíkti ég á innistæðuna á bankareikningum mínum og viti menn.... ég átti meiri pening en mig minnti í fyrsta skipti síðan ég var í MR :0)
Svo stefnir allt í helgarferð dauðans til Prag í haust.... Í hvaða landi er annars Prag ??? A.m.k. hlakka ég mikið til að fara. Svo eru það náttla Eyjar fyrst... reyndar eru flestir verkfræðingarnir að beila á ferðinni, en við Kristín (og ábyggilega Siggi) látum það nú ekkert á okkur fá. Síðan verður vonandi fullt af MR-ingum þarna, amk ætla Fríður og Gyða að mæta og vonandi fylgir heil hersing í kjölfarið (amk treysti ég á það).

Ómægod... ég mun deyja ein !!!





Hvernig á ég að höndla svona niðurstöðu ofan á allt sem ég gekk í gegnum með kúluna mína á hausnum ?? Það er ekki hægt að leggja svona mikið á eina manneskju.

Í dag á ég ýkt bágt. Fékk massa kúlu á hausinn í gær og núna er mér massa massa illt. Vaknaði meira að segja í nótt og alles því ég lá beint á kúlunni. Ég ætla að fara í mál við þann sem fann upp rafdrifnar bílskúrshurðar. Það er hverjum manni ljóst að þær eru gangandi slysagildra sökum hversu hægt þær opnast og lokast. Í gær varð ég fyrir barðinu á hægri opnun... var orðin of sein í vinnuna og var að rífa hjólið mitt út úr bílskúrnum, en haldið ekki bara að ég reki höfuðið bend í fokkings hurðina því hún var ekki búin að opnast jafn mikið og hún ætti að vera búin að gera. Double Föck segi ég nú bara.

8.7.02

Hvaða próf á netinu ætli sé asnalegast... ég er ekki enn búin að finna svarið en leitin fer að styttast sýnist mér....
What stupid online quiz are you?
What stupid online quiz are you?

Þá er helgi snilldarinnar liðin undur lok og ný vinnuvika tekin við.... Óneitanlega er þreytan dálítið að angra mann sökum lítillar hvíldar um helgina en það er bara allt í gúddí því ég ætla að leggja mig á eftir. En Skógaferðin var algjör snilld, það var sko bara gaman. Reyndar var rigning inn á milli en það var allt í lagi því að ég var svo vel búin og snjóbuxurnar hennar Kristínar voru Live-Saver. Samt finnst mér alltaf jafn fyndið að í svona útileigum eru alltaf einhverjar gellur sem þrjóskast við að fara í hlý hlífðarföt og spígspora um í þröngum gallabuxum og flegnum bolum og fá svo blöðru- og lungnabólgu í kjölfarið... Díses hvað ég myndi ekki nenna að vera svoleiðis. Það er bara hluti af stemningunni að vera ýkt vel klæddur. Annars er ég bara farin að hlakka til að fara til Eyja um verslunarmannahelgina því að það verður bókað enn skemmtilegra þar ...
En í tilefni þess hve lítil málning var höfð um hönd (og andlit ... hahaha, ég er svo fyndin) þá ákvað ég að skella mér í þetta próf.

i'm a blusher. what type of make up are you?
quiz made by muna.

5.7.02

Haffi var að benda mér á afar fróðlega og skemmtilega síðu... hana má einmitt finna hér. Góða skemmtun sóðar !!!

Travis búnir og ég er bara nokkuð sátt við tónleikana þó að þeir hafi nú mátt spila aðeins lengur. Heyrði nebbla frá Hróarskelduliði að þetta hafi verið nákvæmlega sama prógramm og þeir tóku þar sem er náttla ekki alveg nógu sniðugt því að á Hróarskeldu tekur önnur hljómsveit við eftir að þeir hafa lokið sér af en svoleiðis er það nú ekki þegar þeir eru bara einir með tónleika .... Kannski þeir hafi ekki alveg fattað þetta. A.m.k. fannst mér dáldið snemmt að vera bara komin út kl 10. En engu að síður þá fá þeir mikið hrós fyrir mjög skemmtilega tónleika. Ég skemmti mér konunglega. Þó verð ég að segja að það hefur líklega enginn skemmt sér jafnvel og Toggi en það var ótrúlega gaman að fylgjast með honum syngja með hverju einasta lagi af mikilli innlifun. Fyrir þessa frábæru framkomu fær hann titilinn maður vikunnar. Haukur fær hins vegar titilinn egó vikunnar þar sem hann hélt að við værum að horfa á sig þegar við vorum að fylgjast með Togga ... týpískt eða hvað ??

4.7.02

4th of July
Jæja, þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna runninn upp. Ef að ég hefði ekki vott af óbeit á bandaríska samfélaginu þá myndi ég bara kannski klökkna... Það er samt vonandi að Al Kaída eða einhver önnur hryðjuverkasamtök fari ekki að láta til skarar skríða í tilefni dagsins.
Annars eru viðburðarríkir dagar framundan ... Travis í kvöld og síðan eru það Skógar um helgina ... Yeah Baby, Yeah !!! Verst að skv. nýjustu veðurspám á að rigna eitthvað á laugardeginum. Það er ekkert spes sko.

3.7.02

Úbbossí.... það virðist sem ég hafi sært einhvern með umfjölluninni um sveitavarginn og vibbastaði á landsbyggðinni. Það vildi nefnilega ekki betur en svo að Humarhátíðin sem ég minntist á fyrr í dag er á engum öðrum vibbastað heldur en Höfn í Hornafirði. Fyrir þá sem ekki eru alveg inni í málum þá er rétt að geta þess að það eru einmitt átthagar hans Sigga. Hann varð voða sár þegar hann gerði sér grein fyrir hversu lítið álit ég hef á þessum stað og langar mig að biðjast afsökunar ef að ég hef sært tilfinningar hans (eða annarra) á nokkurn hátt. Það var ekki meiningin, ég er bara borgarbarn dauðans og get ekkert að því gert.

Ég er farin að halda að sveitavargur landsins sé við dauðans dyr sökum leiðinda ... Það er næstum sama hvert á landsbyggðina er litið, öll skítapleisin eru að halda einhverjar hátíðir til að reyna að halda í sér líftórunni. Tökum sem dæmi þessa helgi: Þjóðlagahátíð á Sigló, Færeyskir dagar í Ólafsvík (hvað er eiginlega málið með það ?? ekki veit ég til að Færeyingjar hafi mikið sótt Ólafsvík heim), Humarhátíð á einhverjum vibbastað og svo mætti lengi telja.... Helgina þar á eftir er svo tam Sandaragleði á Hellissandi og ég fæ ekki frið fyrir ættmennum sem eru að reyna að draga mig þangað ... Over my dead body sko !!! Mikið er ég fegin að vera ekki sveitavargur ... þá myndi eina ljósið í lífi mínu (fyrir utan gott fiskerí eða eitthva þannig) vera svona skítahátíðir. Egill hlýtur þó að teljast vottur af sveitavargi þar sem hann tekur þátt í þjóðlagahátíðinni af miklum móð!!

Svo er bara búið að dæma Árna Johnsen í fimmtán mánaða fangelsi. Ég er bara nokkuð sátt við þennan dóm, var samt nokkuð viss um að hann yrði ekki sendur inn heldur fengi bara skilorð. Það er því nokkuð ljóst að hann mun ekki sjá um brekkusönginn í Eyjum um verslunarmannahelgina... nema honum verði varpað beint á skjá frá Litla Hrauni :0)
Annars var Sigga að segja að Sverrir Bergmann ætti að sjá um sönginn... mér líst ekkert alltof vel á það sko. En við getum þá bara haft okkar eigin brekkusöng með Magga á gítarnum. Við munum bókað slá í gegn.

2.7.02

Ég vil benda öllum á að þar sem Egill er utan siðmenningar þessa viku (á Sigló eða einhverju álíka skítapleisi) þá er um að gera að nota tækifærið og hrauna yfir hann þar sem hann mun ekki hafa tækifæri til að svara fyrir sig fyrr en eftir tæpa viku. Það sem meira er ... ef allir sameinast í hrauninu þá munu honum eflaust fallast hendur því ekki getur hann svarað öllum ....
Það var útborgunardagur í gær og ég var ýkt glöð þegar ég kíkti á stöðuna á reikningnum mínum. Gleðitilfinningin varði þó ekki lengi þar sem hún móðir mín hringdi og var svo indæl að tilkynna mér að ég skuldaði nú 32.500 í innritunargjöld (dulnefni fyrir skólagjöld) ekki nóg með það heldur er ég búin að sanka að mér skuldum hér og þar svo að svotil allur peningurinn sem ég fékk fyrir alla kvöldvinnuna er bara gufaður upp á einu bretti. Fokk That segi ég nú bara !!! Mér finnst ekki fallegt af samfélaginu að rífa fyrsta almennilega peninginn manns frá því síðasta sumar eða eitthva álíka bara beint í burtu. Semsagt Fokk the System líka !!!




You are Harley Barbie! You don't asocciate with "sophisticate" barbie and never "nsync #1 fan" barbie, but you know who your friends are and you do what you want. Plus, you have a kick ass motorcycle.


ehh... veit ekki alveg með þetta mótorhjól sko... einu sinni langaði mig geðveikt í þannig (þegar ég var svona 12) en svo prufaði ég að sitja aftan á og ég hef bara sjaldan verið jafnhrædd á ævinni... algjör lúser, ég veit.

1.7.02

click to take it!

HAHAHAHA.... Þvílíkt og annað eins væmið crap !!! bókað Kani sem bjó þetta próf til !!
P.S. Glöggir lesendur taka kannski eftir að gellan með augað mætti alveg plokka á sér augabrúnirnar.

Úff mar... búin að vera steingeld í blogginu síðustu daga. Hlýt að vera eitthvað lasin (er reyndar með massa hausverk núna, það er ekki gaman). Annars getur ástæðan líka verið afskaplega einsleitt og óspennandi líferni mitt, það bara gerist lítið sem ekkert sem er frásagnarvert.... og meiraðsegja ég nenni nú ekki endalaust að tuða og nöldra út af öllu bara til að blogga. En allavegana.... það þýðir víst ekki að barma sér. Það stefnir allt í þvílíka stuðviku, Travis á fimmtudag og síðan útilega um helgina. Ég vona að það verði gott veður, ég nebbla hata að vera í tjaldi í rigningu og roki !!! það ætti að banna svoleiðis með lögum.
Fór á Hverfisbarinn um helgina og hverja haldiði að ég hafi rekist á aðra en dóp-gelluna sem lét henda mér og 7 öðrum stelpum út fyrir viku. Hún þorði nú ekki í mig aftur, skiljanlega þar sem í þetta skipti var ég með leynivopn með mér. Haukur ætlaði nebbla að æla á hana... hann klikkaði samt eitthvað á því, veit ekki alveg afhverju því hann var sko bókað búinn að drekka nóg til að geta það.... ég á það þá bara inni. Síðan ef einhverjum vantar að láta bera sig í leigubíla þá er ég komin í góða æfingu eftir helgina :0)