!
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
... beðist er afsökunar á nördaskap ...
1.3.06

Ég er sko komin með upp í kok af ást Íslendinga á áli. Sveitavargurinn vill fá álver í alla landshluta, stefnt er að stækkun í Straumsvík, glænýju álveri í Helguvík svo ekki sé minnst á hið margumrædda Reyðarál. Mér finnst þetta algjörlega út í hött, einkum í ljósi þess að Íslendingar hafa nú þegar fyllt upp í koldíoxíðkvótann sinn og fleiri álver þýða bara eitt: undanþágu frá Kyoto bókuninni sem er gott mál að mati iðnaðarráðherra því ´allir vita jú að það er betra að framleiða ál hér á landi með umhverfisvænni orku en með kjarnorku eða kolum einhvers staðar annars staðar´. Verri rök held ég að ég hafi sjaldan heyrt, nema e.t.v. frá Ástþóri Magnússyni.

Það er hrópandi mótsögn að á meðan við Íslendingar þykjumst vera einhver umhverfisvænasta þjóð veraldar með þau háleitu markmið að verða algjörlega sjálfbær í orkumálum innan fáeinna áratuga rísi eiturspúandi álver um allt land eins og gorkúlur. Mér finnst alveg nóg komið. Ef við viljum endilega eiga heimsmet í álframleiðslu er gáfulegra að stækka þau álver sem þegar er búið að byggja en ekki spilla meira landssvæði. Mér finnst samt frekar að það eigi að nýta orkuauðlindir landsins með skynsamlegri hætti. Nýjan iðnaðarráðherra takk (ríkisstjórnin má alveg fjúka með)!