!
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
... beðist er afsökunar á nördaskap ...
23.9.05

Ég var við það að gefa út dánartilkynningu síðunnar þegar töfraorðið -klukk- vakti hana skyndilega af sumardvala. Klukkið tröllríður bloggheimum um þessar mundir og aragrúi fólks gefur upp undarlegustu staðreyndir um sjálft sig. Ég vil að sjálfsögðu vera í takt við tímann og læt því flakka fimm staðreyndir um sjálfa mig:

1 - Önnur framtönnin mín hefur brotnað 14 sinnum en hin einu sinni. Sú fyrrnefnda brotnaði t.a.m. einu sinni þegar ég var á diskóteki.

2 - Þegar ég fæ mér brauðsneið eða rúnnstykki ýti ég létt með gómum vísi- og löngutangar ofan á brauðið/rúnnstykkið áður en ég gæði mér á því. Þennan sið apaði ég upp eftir afa mínum í bernsku.

3 - Mér býður við álum og hrossaflugum þar sem stærðarhlutföll líkamshluta þeirra samsvara sér engan veginn.
(Pæling: á orðið líkami einungis við menn eða er hægt að tala um líkama dýra?)

4 - Báðir vísifingurnir mínir eru bognir. Eigin athuganir benda til þess að um 5 gráðu beygju frá láréttu sé að ræða. Tekið skal fram að athuganirnar byggjast ekki vísindalegum grunni og því má gera fyrir að skekkjumörk séu um 2 gráður.

5 - Ég er 24 ára og hef setið samfleytt á skólabekk í átján ár. Ennþá eru fjögur ár í að ég nái markmiðinu - doktorsgráðu. Ég get engan veginn sætt mig við meistaragráðuna sem mér hlotnast að ári liðnu - Dr. Edda hljómar alltof vel...

Af mér er annars lítið að frétta þó að margt hafi drifið á daga mína í sumar. Ég hélt t.a.m. minn fyrsta fyrirlestur á stórri ráðstefnu. Því fylgdi mikið stress en það var samt lúmskt gaman (a.m.k. eftir á að hyggja). Ég dó næstum því úr kulda í útileigu í Skaftafelli, spókaði mig um í sumarblíðu í Kaupmannahöfn og rumpaði frá mér tæplega þrjúhundruð síðna skýrslu fyrir OR.