!
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
... beðist er afsökunar á nördaskap ...
31.1.05

Í Fréttablaðinu í gær rak ég augun í auglýsingu þar sem nýuppgert sófasett eftir Kaj Pind var auglýst til sölu. Mér fannst þetta alveg sérstaklega skemmtileg auglýsing - enda ekki á hverjum degi sem maður sér sófasett eftir afa sinn auglýst til sölu. Ef ég væri ekki nýbúin að fá ýkt fínt leðursófasett er ég ekki frá því að ég hefði bara skellt mér á gripinn. Það eru nefnilega ekki allir sem geta státað af sófa eftir afa sinn :)

28.1.05

Ég hef eignast nýjan óvin: Gönguleiðina frá Stúdentagörðum að VR-byggingunum. Það heyrir nær til undantekningar ef ég dett ekki þegar ég labba þessa leið. Versti hluti ferðarinnar, og sá sem ég óttast mest, er þó litla brekkan ofan við skúrinn minn. Hana renn ég iðulega alltaf niður og enda á bossanum, rassblaut upp fyrir haus ... Svei mér þá ef ég fer bara ekki að fara að ráðum móður minnar og fjárfesti í mannbroddum.

22.1.05

Sófi til sölu, kostar eina tölu
... eða kannski frekar 10 þús kall. Við Lindi erum sumsé að losa okkur við hornsófann okkar og erum komin með dýrindis leðursófasett í staðinn. Ég er ýkt montin af því.

20.1.05

Til hamingju með afmælið ...
Afstæðiskenningin á 100 ára afmæli í ár og í dag héldu Þjóðverjar afmælisveislu handa henni. Til hamingju með afmælið :)

Vann annars bíómiða á Alexander í gærkvöldi. Mæli alls ekki með henni. Angelina Jolie er hallærislegri en í öllum öðrum myndum sínum til samans og ekki get ég sagt að Colin Farrel og Jared Leto hafi verið sannfærandi í hlutverkum samkynhneigðra bardagakappa. Ein og hálf stjarna.

14.1.05

í dag hef ég ekkert að segja, nenni ekki neinu, er blaut í fæturna og á hnénu af því að ég datt í hálkunni og hef alltof mikið að gera. Sem sagt - ég á bágt í dag.

Annars ætla ég að horfa á sameiginlegu útsendingu sjónvarpsstöðvanna þriggja annað kvöld í tilefni af landssöfnun vegna flóðanna í Asíu. Þar á Villi naglbítur að bjóða upp gult bindi úr eigu Björgólfs, svanakjólinn hennar Bjarkar og ýmislegt fleira spenanndi. Mikið væri ég til í að eignast svanakjólinn - það væri ekki amalegt að eiga svoleiðis dýrgrip. Það verður spennandi að sjá hvort fátæki námsmaðurinn sem ég er eigi efni á að bjóða í hann :)

Eitt er amk á hreinu - ef ég eignast kjólinn mun ég halda partý með svanaþema þar sem ég mun fara með gamanmál í Svanakjólnum og dansa Svanavatnið.

Hmmm... það er greinilega kominn föstudagur í mann. Góða helgi lömbin mín.

13.1.05

Útsendingum þriggja útvarpsstöðva Íslenska útvarpsfélagsins, Skonrokks, X-ins og Stjörnunnar var hætt klukkan níu í gærkvöldi. Í staðinn verður starfsemi Bylgjunnar og FM957 efld, auk þess sem nýrri útvarpsstöð verður hleypt af stokkunum. Illugi Jökulsson er útvarpsstjóri þessarar nýju stöðvar og á hún að vera í anda Rásar 1.

Hvað á þetta eiginlega að þýða?!? X-ið og Skonrokk voru einu útvarpsstöðvarnar sem ég nennti að hlusta á. Nú er a.m.k. ljóst að ég þarf að hlaða geisladiskum í bílinn því ekki meikar maður að hlusta á FM-gaul nema í allra stystu bílferðunum.

5.1.05

Er búin að liggja í mesta letikasti seinni ára yfir hátíðarnar. Loksins þegar ég ætlaði að drattast á fætur í byrjun nýs árs tókst mér hins vegar að ná mér í einhverja magapest svo síðustu daga er ég búin að liggja eins og skata yfir bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Ég verð nú að segja að ég er orðin ansi þreytt á þessu hóglífi og hyggst mæta í vinnuna á morgun og byrja að gera eitthvað af viti. Mín bíður skýrslubunki, ásamt fjölda greina og ritgerða. Je.

Sendi annars öllum síðbúnar jóla- og nýárskveðjur. Sendi engar jólakveðjur þessi jólin en stefni ótrauð á að gera það að ári liðnu.