!
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
... beðist er afsökunar á nördaskap ...
30.11.04

Enn af Guðna ...
Sá einhver DV í dag? Guðni Ágústsson var víst fluttur í snarhasti á bráðamóttöku Landsspítalans út af magakveisu. Að eigin sögn var hann "kvalinn eins og hann væri að fæða barn". Það er naumast að reynsluheimur landbúnaðarráðherrans okkar er víðfeðmur. Meira að segja ég get ekki gert mér í hugarlund hvernig sú tilfinning er ... þó ég hafi a.m.k. öll nauðsynleg líffæri til verksins... Svo er það bara stóra spurningin: Ætli magakveisan orsakist af pylsuáti?

Nú vind ég kvæði mínu í kross og stefni ekki á frekari skrif um Guðna. Öllu má nefnilega ofgera.

Uppi varð fótur og fit í síðasta verklega tíma almennrar efnafræði 1 í dag. Þá varð hluta nemenda nefnilega ljóst að kennarinn væri þeim nokkrum árum yngri.

25.11.04

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, er duglegur að láta hinar undarlegustu staðhæfingar dynja á landsmönnum. Nokkrar fleygar setningar eru t.d.

... staða konunnar er bakvið eldavélina
... þar sem tvö tré koma saman, þar er skógur
... mjólk er undirstaða lífsins
... pylsur eru með eindæmum hollar og því eiga krakkar að borða þær í sem flest mál

Ætli að einhver sé að safna ummælum af þessu tagi saman. Það væri ábyggilega hægt að gera ágæta bók úr þeim.

24.11.04

Ég kvíði 10. desember. Ekki nóg með að um morguninn sé skammtafræðipróf sem verður "svínslegt að venju" að sögn kennara heldur á ég tíma hjá kvensjúkdómalækni strax eftir prófið. Ekki að það sé neitt hræðilegt, en samt líður mér alltaf frekar asnalega á blessuðum skoðunarbekknum ...

Vinn hörðum höndum við að ljúka skýrslum og reikniverkefnum þessa vikuna, sem betur fer er ég næstum því farin að sjá fyrir endan á þeirri vinnu svo það styttist í próflestur og jólafrí.

19.11.04

Var að koma af forsýningu á nýju Bridget Jones myndinni og er gjörsamlega búin á því... ég hló svo mikið. Svei mér þá ef þessi mynd er ekki betri en sú fyrri.

Lítið hefur drifið á daga mína síðan ég fór í víking til Litháen og gott ef bíóferðin í kvöld markar ekki hápunkt síðustu viku. Ég nenni ómögulega að skrifa ferðasöguna og get því miður ekki birt neinar myndir því ég tók engar. Ljóskumóment ferðarinnar var tvímælalaust þegar ég settist í sætið mitt í flugvél Icelandair á leið heim til Íslands. Ég sat í gangsæti en í gluggasæti sömu raðar sat eldri maður:

Maður: Jæja, svo að þú situr bara í sæti númer D.
E: Jájá, það er víst.
Maður: (Dæsir) Mikið vona ég að engum hafi verið úthlutað sætið í miðjunni og að það verði bara tómt.
E: Ég veit reyndar að það er ekki tómt, samstarfsfélagi minn situr þar.
Maður: (Dæsir enn) Æi ekki er hún full?!?
E: Samstarfsfélagi minn er hvorki kona né full, heldur bláedrú karlmaður.
Maður: (Starir á mig furðulostinn) Ég var nú bara að velta fyrir mér hvort vélin væri full...
E: Ehhh, nú já, auðvitað...

5.11.04

Þá fer aldeilis að styttast í að heimsreisa mín til Litháen hefjist. Ég legg nefnilega af stað út á flugvöll eftir rétt um hálftíma. Því miður virðist ætla að rigna alveg dagana sem ég verð í Vilinius, en það er allt í lagi, ég tek bara regnhlíf með mér.

Mér þykir frekar glatað að maður þurfi að hafa Bush hangandi yfir sér í fjögur ár til viðbótar. En maður á víst alltaf að líta á björtu hliðarnar - nú aukast líkurnar á að Hillary Clinton bjóði sig fram eftir fjögur ár og hana vil ég sko sjá sem forseta Bandaríkjanna.

3.11.04

Mikið hefur gengið á síðustu vikur. Ég hef m.a. gengið í hlutverk dönskukennara í framhaldsskóla, lent í miklum vandræðum með SAS-flugfélagið ásamt tölvuvandamálum sem því miður eru næstum daglegt brauð nú orðið ...

Annars er ég á leiðinni til Litháen eftir 2 daga. Veit ekki alveg hverju ég á að búast við. Ég hef heyrt orðróm um að Litháar gangi um með loðhúfir og drekki Vodka af miklum móð. Hvort það er rétt hef ég ekki minnstu hugmynd um, en það mun koma í ljós innan tíðar...

Íslenskir ráðamenn fara mikið í taugarnar á mér þessa dagana. Af hverju í ósköpunum þykjast þeir aldrei þurfa að svara til saka fyrir eigin gjörðir heldur láta sem ekkert sé og sitja áfram í embætti eins og kóngar í ríki sínu. Í nágrannaríkjunum fá þeir yfirleitt að fjúka med det samme ... Niður með olíufélögin og nýjan borgarstjóra takk !