!
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
... beðist er afsökunar á nördaskap ...
30.9.04

Var rétt í þessu að rekast á eftirfarandi frétt á mbl.is:

,,Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri í Kaliforníu, undirritaði í gær lög sem banna nauðungarfóðrun dýra, og þýðir það í raun að gæsalifrarframleiðsla verður ólögleg í Kaliforníu. Gæsalifur er oft búin til með því að láta gæsir og endur borða nauðugar viljugar."

Ég held það sé nú meiri þörf á að endurskoða lög um aðgang að byssum og öðrum skotfærum áður en farið er að eyða púðri í gæsalifraframleiðslu. Skilur annars einhver hvað átt er við með því að ,,láta gæsir og endur borða nauðugar viljugar". Mér sýnist þetta vera algjör þversögn og botna hvorki upp né niður í setningunni.

29.9.04

Það er aldeilis búið að vera mikið að gera hjá mér upp á síðkastið. Er búin að liggja sveitt yfir nýjustu skammtafræðidæmunum og er skemmt frá því að segja að nú gengu þau öllu betur en síðast - gat 3 af 4 dæmum en síðast gat ég bara brot af einu :0( . Reyndar held ég því statt og stöðugt fram að ég hefði getað leyst þau öll ef ég hefði ekki óvænt verið sett í tilraun í eðlisfræði þéttefnis í gærkvöldi milli 6 og 10 !!! (Erðanú tími!!!). Ég þurfti semsagt að dúsa í 4 klukkutíma í súrefnis- og gluggalausu herbergi í VR-III og bomba leysigeislum á mismunandi efni og kristallagerðir. Víííí...

Að tilrauninni lokinni var ekki nokkur möguleiki að snúa sér aftur að skammtafræðinni svo ég greip til þess ráðs að fara bara að sofa.

Lífið mitt er sem sagt með eindæmum spennandi þessa dagana. *Dæs*

24.9.04

Í kvöld er ég að fara á dávaldinn. Spurning hvort honum takist að dáleiða staðfasta mig. Efast um það. Ætla samt ekki að taka neina áhættu og hyggst því ekki taka þátt í neinu sem hann biður salinn um að gera. Það er nefnilega ekki séns að ég ætli að gera mig að fífli fyrir fullu Broadway. Hlakka samt mikið til að sjá aðra gera það. Múahahaha... (þetta var ljótukallahlátur).

21.9.04

Er nýkomin heim úr skólanum þar sem kennarinn í Eðlisfræði þéttefnis ákvað að hafa aukatíma klukkan 7 í kvöld. Fólk var almennt ekkert voðalega ánægt með þetta þangað til að í ljós kom að bjóða ætti upp á pizzur - þá tóku allir strákarnir sko gleði sína (NB. ég er eina stelpan í þessum kúrsi eins og flestu öðru sem ég er aðhefst þessa dagana...). Það var hins vegar galli á gjöf Njarðar - áður en við máttum byrja að gæða okkur á lummunum þá þurftum við að leysa eitt ansi strembið og ruglingslegt dæmi. Það tók tímann sinn svo við borðuðum kaldar pizzur :0(

Þegar ég var lítil hlustaði ég mikið á barnaplötur. Hver man ekki eftir Dýrunum í Hálsaskógi, Kardimommubænum, Smjattpöttunum, Hatti og Fatti og öðrum skemmtilegum plötum. Uppáhaldsplatan mín (a.m.k. eftir á að hyggja) er þó Glámur og Skrámur í sjöunda himni. Þar heimsóttu þeir félagar súkkulaðiland þar sem allir voru tannlausir af sætabrauðs- og sykursnúðaáti. Allir nema prinsessan - hún borðaði ekki nammi og var þess vegna með fallegar, heilbrigðar tennur. Mig rámar líka í syngjandi eða fljúgandi hest. Svei mér þá, eitthvað af næstu kvöldum ætla ég að ganga í barndóm og hlusta á allar plöturnar mínar aftur. Verður það án efa kærkomin tilbreyting frá torlesinni skammtafræði og bókum um Unix-skipanir.

19.9.04

Í gær fór ég í brúðkaup Möggu og Jónsa. Dagurinn var í alla staði frábær ... Magga var stórglæsileg í kjólnum, athöfnin var frábær og veislan ekki síðri. Hápunktar dagsins voru nokkrir
  1. Þegar Magga labbaði inn kirkjugólfið
  2. Kossinn
  3. Brúðarvalsinn
  4. Trylltur dans okkar MR gella við Sísí - við misstum okkur meira en nokkru sinni enda ein úr hópnum í brúðarkjól ;0)
Ég þakka kærlega fyrir mig og sendi brúðhjónunum innilegar hamingju- og heillaóskir.

P.S. Mér finnst magnað að fólk jafngamalt mér sé byrjað að gifta sig - ætli það sé mælikvarði á að maður sé orðinn fullorðinn?!? Vonandi ekki...



17.9.04

Scooter er undarlegt fyrirbæri. Lengi hef ég staðið í þeirri trú að aðdáendur þeirra væru upp til hópa Þjóðverjar en mig rak aldeilis í rogastans um daginn... Scooter eru nefnilega að fara að halda sína aðra tónleika á Íslandi !!! Maður hlýtur því að draga þá ályktun að þeir eigi sér nokkuð dyggan aðdáendahóp hér á landi. Þykir mér það miður.

Í gær greindi danska konungshirðin frá því að Jóakims Danaprins og Alexandra prinsessa hygðust skilja. Þetta þykja mér afskaplega leiðinlegar fréttir, enda mikil áhugamanneskja um dönsku konungsfjölskylduna. Vonandi taka hin nýgiftu Frederik og Mary ekki upp á að herma ...

15.9.04

Í dag er ansi merkilegur dagur...
... því að Dabbi kóngur er allt í einu orðinn Dabbi utanríkisráðherra og í staðinn höfum við eignast Dóra kóng. Frekar skrýtið ... Ætli að það sé tilviljun ein að einmitt í dag eru 50 ár liðin frá því að hið fræga pilsa-atriði með Marilyn Monroe var tekið upp - eða liggja einhver dularfull falin tengls þarna á milli. Því þætti mér gaman að komast að.

14.9.04

Skólamál af ýmsu tagi
  1. Kenndi almenna efnafræði I í fyrsta skipti í gær. Gekk það bærilega þrátt fyrir að einungis tveir eða þrír nemendur væru með kennslubók með sér. Útgáfu bókarinnar hefur víst verið hætt og engin eintök eru til hjá Bóksölunni - ég sé því fram á að almennt verði nemendur bókarlausir í vetur... Ég vona samt að þau verði betur undirbúin en í gær því stundum átti ég erfitt með að skella ekki upp úr yfir alveg hreint mögnuðum vinnubrögðum ... segi ekki meir um það ...
  2. Fjárskortur Háskóla Íslands er nú orðinn það mikill að ákveðið hefur verið að spara 15 milljónir þetta skólaárið og loka Þjóðarbókhlöðunni klukkan 7 á kvöldin. Mér finnst með eindæmum fáránlegt að ein besta lesaðstaða landsins sé ekki betur nýtt en þetta og var ekki lítið fúl út í ríkisstjórnina að þröngva Háskólanum til þessara neyðarúrræða. Í fréttum Stöðvar 2 fyrr í kvöld var svo greint frá því að Háskólinn hyggst í ár eyða 18 milljónum í skrautgrindur utan á nýja Náttúrufræðahúsið ... Hvað er málið með það?!? Spurning um að forgangsraða peningum aðeins betur, er virkilega ekki búið að dæla nógu miklum peningum í þetta bölvaða hús?!?
  3. Grunnskólakennarar eru á leið í verkfall enn og aftur. Ég lenti í verkfalli í 8. bekk og hef aldrei beðið þess bætur. Þá átti ég nefnilega að læra landafræði. Aldrei fékk ég landafræðikennsluna sem ég missti af og fyrir vikið get ég aldrei svarað bláu spurningunum í Trivial Pursuit. Mikið vona ég að þessi örlög bíði ekki nemenda 8. bekkja grunnskóla í kjölfar þessa verkfalls.

11.9.04

Á leið minni heim úr World Class í gærkvöldi bar undarlega sýn fyrir augu mín: Á túninu fyrir ofan Blómaval í Sigtúni voru eldri hjón við sveppatínslu og höfðu þau næstum fyllt heilan glæran plastpoka af sveppum. Ég er ekki mikil áhugamanneskja um sveppi en er nokkuð viss um að sveppirnir sem hér um ræðir séu ekki notaðir við eldamennsku...

Vetrardagskrá sjónvarpsstöðvanna er nú komin á fullt og hugsaði ég mér gott til glóðarinnar af þeim sökum enda nýir Will & Grace þættir m.a. að hefja göngu sína. Er leið á síðustu viku varð mér þó ljóst að ég þarf ekki að horfa neitt á sjónvarpið fram að jólum - sá allar ,,nýju" seríurnar í Danmörku. Þetta þykir mér nokkuð ljúfsár staðreynd.

Áunna rokofnæmið mitt er farið að segja ansi mikið til sín þessa dagana og er ég af þeim sökum orðin mikill innipúki. Held það myndi gera mér gott að skreppa til útlanda í sól og sumar í svona tvær vikur.

7.9.04

Niðurdrepandi staðreynd
Ég er búin að sitja sleitulaust í sólarhring yfir þremur skammtafræðidæmum sem ber að skila á morgun en mér hefur enn ekki tekist að ljúka við heilt dæmi - aðeins brot hér og brot þar.

6.9.04

Eitthvað hafa bloggfærslur farið fyrir ofan garð og neðan hjá mér í sumar. Nú er þó nóg komið og hyggst ég reka af mér slyðruorðið og blogga af miklum móð í vetur.

Mikið gekk á í lok sumars við að ganga frá skýrslum um hin ýmsu verkefni sem rannsóknadeild OR fól mér. Fyrsta dag þessa mánaðar urðu svo töluverð sinnaskipti á lífi mínu þar sem þá hófst meistaranám mitt við HÍ. Í dag fékk ég afhenta Machintosh fartölvu sem ég á að nota í verkefnavinnunni. Ekki nóg með að ég þurfi nú að rifja upp þá litlu þekkingu sem ég hef á Machintosh-umhverfi heldur þarf ég víst líka að nota Unix stýrikerfi á henni. Sumsé: Miklar sviptingar í tölvuþekkingu framundan og ég sem er ennþá svo skotin í fínu PC tölvunni minni.

Kenndi fyrsta tímann minn í verklegri efnafræði í dag - hélt ég væri búin að gleyma öllu tengdu títrunum en heilu ósköpin rifjuðust upp um leið og ég gekk inn í vel-tækjum-búna-almennu-efnafræði-verklegu-stofuna ;0).

Bloggæði mínu verður víst að linna að sinni núna þar sem snúin skammtafræðidæmi bíða mín.