!
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
... beðist er afsökunar á nördaskap ...
31.3.04

Dem
Var að skoða flugmiðann minn áðan og sá þá að ég á víst ekki að fljúga heim fyrr en klukkan átta á föstudagskvöldið. Ég sem hélt að ég ætti að fljúga klukkan eitt. Þetta er hið versta mál og raskar öllum plönum helgarinnar...

30.3.04

Núna eru innan við þrír sólarhringar þangað til ég kem til Íslands og ég fer að verða ansi spennt. Verst að tíminn er svo lengi að líða þegar maður hlakkar til einhvers...

29.3.04

Ég var að gera mér grein fyrir alveg skelfilegri staðreynd. Ég hef tapað klukkutíma af ævinni minni. Orsök þess er að síðasti sólarhringur var einungis 23 klst til að koma Danmörku á sumartíma. Í staðinn verður einn sólarhringur í haust 25 klst og endurheimtir fólk þá þennan tapaða klukkutíma - en ekki ég því ég verð farin heim til Íslands. Mér finnst þetta alveg hrikalegt, hver veit nema eitthvað rosalega spennandi og skemmtilegt hefði gerst akkurat þennan klukkutíma...

Fór til Stokkhólms um helgina með Kristínu og dvöldum við í góðu yfirlæti hjá Magga & Möggu. Þröng var á þingi því Helgi var einmitt að skipta um húsnæði svo hann fékk líka að gista hjá þeim. Í stuttu máli sagt var rosalega gaman en manni stóð ekki á sama þegar tók að rökkva því Stokkhólmur hefur jú hæsta glæpatíðni á Norðurlöndum...

25.3.04

Ég hélt að páskahretið væri séríslenskt fyrirbrigði en svo er greinilega ekki því áðan byrjaði sko að snjóa hérna. Eins gott að ég er að fara til Svíþjóðar á morgun - vonandi er betra veður þar.

Lenti í leiðindaratviki áðan meðan ég var að hjóla upp í skóla (tókuði eftir ríminu?). Var á leið yfir gatnamót þegar buxurnar mínar flæktust skyndilega í hjólakeðjunni. Í kjölfarið fylgdu svo ansi kjánalegar hreyfingar - reyndi að losa buxurnar meðan ég var ennþá á ferð því ekki vildi ég tapa niður öllum skriðþunganum sem ég var búin að vinna upp. Lét reyndar í minni pokann að lokum og sté af hjólinu. Ég vil þó meina að ég hafi haldið þokka allann tímann.

24.3.04

Af stjörnustælum og öðrum stælum
Síðastliðinn laugardag fór ég ásamt fríðu DTU-föruneyti á tónleika með Eivöru Pálsdóttur. Tónleikarnir voru haldnir á Eyrarsundskollegíinu, nánar tiltekið í sal sem hefur munað sinn fífil fegurri þar sem gólfið var þakið pollum. Eflaust var það götóttu þaki um að kenna... Tónleikarnir voru hin besta skemmtun - einkenndust af frumlegri tónlist og skemmtilegri sviðsframkomu. Þegar hljómsveitin hafði flutt lokalagið, hneigt sig og beygt við lófaklapp og yfirgefið salinn héldu áhorfendur fagnaðarlátunum áfram þar sem venjan er að í kjölfarið stígi hljómsveitin á stokk á ný og spili eitt eða tvö aukalög. Sú var hins vegar ekki raunin því Eivör og co. voru farin í fýlu út af lélegum hljómgæðum og kliði í áhorfendum...

Mér fannst það frekar fyndið því í fyrsta lagi er ekki hægt að búast við geðveikum hljómgæðum þegar tónleikar eru haldnir á kollegíi sem þessu og í annan stað er bara ósköp eðlilegt að spjalla aðeins við sessunautinn milli laga. Ég er því ekki frá því að ,,frægðin" hafi stigið Eivöru og hljómsveit hennar til höfuðs - a.m.k. fannst mér þessi framkoma bera svolítinn keim af stjörnustælum. En ég er náttúrulega bara leikmaður í þessum efnum - sjálfur listamaðurinn ætti að geta skorið úr um hvort þessi framkoma hafi verið réttmæt.

Annars fer aldeilis að styttast í betri tíð hjá mér. Næstu helgi ætlum við Kristín að skella okkur til Stokkhólms og eftir einungis 9 daga er ég væntanleg heim til Íslands. Þið getið því tekið gleði ykkar á ný lömbin mín - Eddan fer alveg að koma...

23.3.04

Eins og margir vita er mikil húsnæðisekla hérna í Kaupmannahöfn og því er húsnæðiskostur skiptinema hér með allra skrautlegasta móti – bæði hvað varðar staðsetningu og aðstöðu. Ég er sæmilega staðsett (a.m.k. með tilliti til DTU – er svolítið langt frá miðbænum) og með kapalsjónvarp en geld fyrir það með stórfurðulegum leigusölum og algjörum heitavatnsskorti – já þið lásuð rétt – ég fór seinast í heita sturtu þann 24. janúar! Norðmaður nokkur sem býr ekki svo langt frá mér býr í svo illa einangruðu herbergi að u.þ.b. eins sentimetra gat er á milli gluggapósta og veggja svo þið getið rétt ímyndað hita- og vindstig þar inni þegar kalt er í veðri og vindur blæs. Annar strákur frá Tékklandi var svo ,,heppinn” að fá húsnæði í einungis 20 km fjarlægð frá DTU og að sjálfsögðu í öfugri átt frá miðbænum. Steinunn býr, að mér skilst, í skordýranýlendu – eitthvað sem líffræðingar myndu eflaust hafa gaman að, en annað er að segja um okkur verkfræðinganna.

Þrátt fyrir að skiptinemum sé troðið í alls kyns húsnæði – hvort sem þau teljast boðleg eða óboðleg siðmenntuðu fólki – þá er bara ekki nóg húsnæði á boðstólum í Kaupmannahöfn. Þess vegna hefur alþjóðaskrifstofan í DTU gripið til þess örþrifaráðs að hýsa afgangsskiptinema (sem yfirleitt eru frá Miðjarðarhafslöndunum) í gámaþyrpingum sem komið hefur verið fyrir á jöðrum skólasvæðisins. Nú halda eflaust flestir lesendur að ég sé að fara með fleipur en ég tók sko myndir máli mínu til stuðnings.

Nú halda lesendur eflaust að hlutirnir gerist ekki verri en rúsínan í pylsuendanum er að einn Íslendingur hefur það svo skítt að hann býr í húsbíl við hliðina á gámaþyrpingunum. Að vísu skilst mér að það sé með hans samþykki en kommon... Ég tók líka mynd af húsbílnum...

Mér finnst bara alveg ótrúlegt að hægt sé að bjóða skiptinemum upp á þetta. Ég hélt að hluti Christianiu-íbúa væru þeir einu sem byggju í gámum, hvað þá húsbílum! Þegar öllu er á botninn hvolft vorkenni ég mér alveg afskaplega mikið í köldu sturtunni minni en ég hugga mig þó við að ég bý ekki í gámi og þaðanafsíður í húsbíl

22.3.04

Skólagjöld - Nei Takk !!!
Stúdentum HÍ barst tölvupóstur frá stúdentaráði í síðustu viku sem innihélt m.a. eftirfarandi klausu:

,,Háskólaráð hefur leitað umsagnar háskólafundar um það hvort að leggja skuli til við menntamálaráðherra að hann beiti sér fyrir breytingu á lögum sem veiti Háskólanum heimild til að innheimta skólagjöld af nemendum í hefðbundnu háskólanámi. Háskólafundurinn verður haldinn 22. mars, og það þykir líklegt að skólagjöld verði samþykkt á fundinum."

Þó að HÍ glími við mikinn fjárhagsvanda (sem endurspeglast einna best í hrikalegum verklegum aðstæðum í VRI, skorti á kennslustofum og skrifstofum) efast ég um að upptaka skólagjalda sé skynsamlegasta lausnin í stöðunni. Eflaust er um ágætis skammtímalausn að ræða en til lengri tíma litið er hætta á að skólagjöldin muni draga úr ásókn stúdenta í háskólanám og þar með leiða til lækkandi menntunarstigs í landinu. Oftar en einu sinni hef ég heyrt þeirri staðreynd haldið á lofti að ef við Íslendingar viljum vera menn með mönnum í alþjóðasamfélaginu verðum við að halda menntastiginu háu og keppast við að flytja út hvers kyns sérþekkingu sem við tileinkum okkur því að ekki eigum við séns á að komast á blað með helstu iðnaðarþjóðum heimsins sökum smæðar. Hvað á það þá að þýða að ætla að taka upp skólagjöld?!? Mér finnst nú nógu skítt að þurfa að borga hverja krónu sem LÍN lánar mér til baka á meðan aðrir Norðurlandabúar fá á milli 40 - 50 þúsund á mánuði í styrk frá ríkinu...

Ég segi því nei takk við skólagjöldum og hvet alla stúdenta við HÍ til að sýna samstöðu og mæta á mótmælafundinn fyrir utan aðalbygginguna kl. hálfeitt í dag og gera það sama.

19.3.04

Lindi var að senda mér einn nýjan Friends þátt og hvorki meira né minna en þrjá 24 þætti í gegnum msn. Úff hvað ég hlakka til að horfa á þættina um helgina =o)

Hið óumflýjanlega hefur gerst... MR tapaði í Gettu Betur. Hjúkket að það gerðist ekki á meðan ég var í skólanum - það var alltaf jafngaman að vinna =o)

18.3.04

Ég hata Matlab !!! &%/##%$&=)(&%$%&&%$#% (Táknar mikil blótsyrði sem ekki eru prenthæf...)

17.3.04

Jæja þá er ég loksins búin að bomba nýjum myndum inn á netið - allir að skoða sem vettlingi geta valdið.

Í dag er vorið ennþá meira komið en í gær. Bara stuttermabola- og pilsaveður. Geggjað. Það er hins vegar ekki eins geggjað að ég er læst úti - þ.e. ég kemst inn um útidyrahurðina en ekki inn í herbergið mitt því mér tókst að loka hurðinni utan frá þótt hún væri innanfrá... Frekar duló...

16.3.04

Þá virðist næstum því verið búið að ganga frá mastersumsókninni minni - og ég þurfti bara varla að koma nálægt því, ansi hreint þægilegt...

Ég tek 15 einingar í kúrsum og svo 45 einingar í rannsóknavinnu. Kúrsarnir virðast vera í erfiðari kanntinum: Stærðfræðigreining IV, skammtafræði, safneðlisfræði og storkueðlisfræði ásamt einhverjum einum kúrs sem ég ætla að ákveða seinna. En ég held allavegana að þetta verði rosalega gaman og lærdómsríkt.

Var að gera mér grein fyrir nokkru hræðilegu í gærkvöldi - það virðist líta út fyrir að mamma og Auður hafi óvart tekið hlýju dúnsokkana mína með heim til Íslands því þeir voru ofan í svefnpokanum þeirra. Þetta er alveg hrikalegt þar sem ég sef alltaf í þeim sökum lélegrar kyndingar heima hjá mér. Kannski kemur þetta þó ekki að sök þar sem vorið er loksins komið - amk á að vera næstum því 15 stiga hiti alla vikuna. Ví.

14.3.04

Kristín var að segja mér að maður á víst að vera búinn að skrá sig í útskrift ef maður hefur áhuga á að fá B.sc. skírteinið sitt í júní. Dæmigert að enginn úr verkfræðideildinni var neitt að hafa fyrir því að láta okkur efnaverkfræðingana í útlöndum vita...

Eins og það er rosalega gaman að sækja einhvern út á flugvöll er jafnleiðinlegt að kveðja einhvern þar. Var að fylgja mömmu og Auði út á Kastrup áðan og þar með lauk 4 daga heimsókn þeirra. Þetta voru alveg frábærir dagar (að undanskyldu kvefi og hálsbólgu sem hrjáðu mig og mömmu) og nú er ég sko farin að hlakka enn meira til þess að koma heim um páskana - nú eru bara 2 vikur og 5 dagar þangað til ég kem. Jibbí.

Annars hafa plön mín um framhaldsnám tekið allnokkrum stakkaskiptum í framhaldi af því að ég rakst á Hannes í strætó... Hann er nefnilega búinn að bjóða mér í mastersnemahópinn sinn heima á Íslandi og taka þátt í rannsóknum við að finna hentugri geymsluaðferð fyrir vetni í fólksbílum. Mér fannst þetta rosalega spennandi - ákvað að slá til og slæ ansi hreint margar flugur í sama högginu þannig.

11.3.04

Áðan var ég í strætó með mömmu og Auði (komu til Danmerkur í gær - Jeij) á leiðinni upp í DTU því þær vildu endilega skoða svæðið. Haldiði að Hannes, einn af íslensku prófessorunum mínum hafi ekki setið í strætónum... Þetta er sko lítill heimur.

8.3.04

Ég er búin að taka helling af myndum upp á síðkastið en ég bara gef mér aldrei tíma í að koma þeim á netið. Þyrfti að fara að drífa í því fljótlega.

7.3.04

Obbobobb...
Ég var búin að gleyma hvað það er rosalega gaman að leita að villum í Matlab-kóðum... Er búin að sitja sveitt við forritun á varmaflutningsfræðiverkefninu mínu í allan dag og var orðin voða stolt af því sem komið var - en þá prófaði ég að keyra forritið... Hvað haldiði að hafi gerst? Það bara keyrði og keyrði og keyrði og keyrði nema engar niðurstöður komu og heldur engar villumeldingar. Það er náttúrulega ekki eðlilegt svo nú er ég búin að rýna í kóðann svo lengi í leit að villu að ég er ábyggilega orðin varanlega tileygð en ég barasta finn ekkert sem gæti orsakað þetta vesen...

Held að ég fari barasta að hætta þessu í bili og dembi mér í lærdóm vikunnar. Ætla að reyna að vera búin með allt fyrir vikuna á miðvikudagsmorgun því þá koma mamma og Auður í heimsókn. Ég hlakka ekkert smá til.

6.3.04

Afhverju er svona mikið að gera í skólanum??? Þyrfti helst að sleppa því að sofa í svona 3 - 4 daga til að komast yfir allt sem ég þarf að gera...

Verð að vinna verkefni í allan dag en í kvöld ætlum við Steinunn að elda góðan mat og horfa á "Með allt á hreinu". Það verður sko stuð.

4.3.04

Enn af hjólreiðum...
Ég er orðinn algjör hjólagikkur og þeysi um hjólreiðastíga Lyngby og Bagsværd eins og eldibrandur þessa dagana. Vegfarendur snúa sig nær úr hálslið og bera herlegheitin augum - aðallega sökum gríðarfallegs hjólastíls míns (amk vil ég halda það) en etv er hluti ástæðunnar að ég dreg sokkana upp á hné og treð buxunum undir þá af því að ég þoli ekki þegar buxurnar flækjast í keðjunni. Þetta þykir víst ekki til siðs hjá dönskum stelpum sem láta pempíuskap frekar ráða ferðinni og skemma buxurnar sínar í leiðinni... En að sjálfsögðu er ég ekki á þeim buxunum nú sem endranær (á þeim buxunum ... skemmtilegur orðaleikur - eða hvað...).

Annars finnst mér gamlar konur á hjólum alveg óþolandi. Þær troðast alltaf fremst á rauðum ljósum og hjóla svo með eindæmum hægt og sikk-sakka svo mikið að það er ekki fræðilegur að taka fram úr þeim. Allt þetta verður til þess að maður nær aldrei næsta græna kalli og endar á að lenda á rauðu aftur... bögg.

Á þriðjudaginn í næstu viku (9. mars ef ég hef talið rétt) opnar stærsta mall í Skandinavíu hérna í Kaupmannahöfn. Ætli maður verði ekki að skella sér á opnunina - það er ábyggilega hellingur af opnunartilboðum...

3.3.04

Í morgun ákvað ég að vorið hlyti að vera komið því það var þvílíkt sólskin úti. Ég fór þess vegna í sumarjakkann minn og sleppti því að taka vettlinga með mér í skólann (því hef ég aldrei sleppt áður). Þegar ég byrjaði að hjóla varð mér hins vegar ljóst að vorið er ekki komið því það var ískaldur mótvindur alla leiðina upp í skóla og ég virkilega hélt að hendurnar myndu kala af mér á tímabili...

2.3.04

Efnaverkfræðingarnir í Santa Barbara - California eru víst á leiðinni á massíva tónlistarhátíð þar sem engir aðrir en Radiohead, Pixies, Air, Cure o.fl. munu troða upp. Kannski maður hefði bara átt að skella sér með þeim til Kaliforníu... Hérna í Köben er reyndar eitthvað af tónleikum á dagskránni, t.d. Pink, Sugarbabes, Britney, Westlife o.fl. í þeim dúr. En ég er sko ekki á þeim buxunum að fara að eyða námslánunum í þannig vibba. Afhverju eru Radiohead ekki á leiðinni til Danmerkur?

Þá er strætókortið mitt útrunnið svo hjólið er orðið minn eini fararkostur. Ég hjólaði í fyrsta skipti í skólann í gær og það kom sko skemmtilega á óvart að það tók ekki nema tæpan hálftíma sem er jafnlangur tími og það tekur að dröslast með strætó.

Ég er bókstaflega að drukkna í verkefnum hérna og sé ekki alveg fyrir endan á þeim... sit samt sveitt við alla daga fram á kvöld.

Steinunn á afmæli í dag og af því tilefni er mér boðið heim til hennar í afmælisköku núna rétt bráðum og í kvöld er matarboð hjá Ernu þar sem boðið verður upp á ofnbakaðan mat - ekki pönnusteiktan. Mikið afskaplega hlakka ég til að gæða mér á öllu þessu góðgæti í dag.