!
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
... beðist er afsökunar á nördaskap ...
28.8.03

Edda sauður
Afhverju gerast alltaf asnalegir hlutir fyrir mig? Um daginn tókst mér að týna símkortinu mínu þegar ég lánaði símann minn (símkortið fylgdi sko ekki með) svo nú á ég engin símanúmer lengur og þar sem ég man ekki símanúmer hjá neinum get ég ekki hringt í neinn. Allir sem vilja halda sambandi við mig verða því einhvernveginn að koma símanúmerinu sínu til mín...

25.8.03

Hmmm...
Í fréttunum í gær var tilkynnt að það ætti að vera geggjað sumarveður í dag. Veðurfræðingarnir hafa samt greinilega verið eitthvað að misskilja því það er svartaþoka úti, amk hérna uppi í Árbæ.
Er í stresskasti að klára verkefnið mitt - hætti á morgun og á eftir að gera svo mikið. Vonandi reddast þetta samt allt saman ...

20.8.03

Ég skil ekki þá sem nenna að eyða tíma í að forrita vírusa og orma (veit ekki muninn á milli...). Hvað í ósköpunum knýr þessa lúða til að leggja sig fram við að skemma fyrir milljón manns út um allan heim? Svona fólk ætti að vera réttdræpt. OK, kannski ekki réttdræpt en eitthvað slæmt á að koma fyrir það...
Ísland Færeyjar í dag klukkan tíu mínútur yfir sex - hvað er málið með þann tíma? ÁFRAM ÍSLAND!!!

18.8.03

Grey Hrefnuveiðimennirnir geta bara ekkert veitt Hrefnur eftir nærri 15 ára bið því að fréttamennirnir þvælast svo mikið fyrir þeim.
Er að fara að kynna verkefnið mitt á eftir og er eitthvað svo eirðarlaus að ég nenni ekki að vinna - er bara að bíða eftir að geta byrjað fyrirlesturinn, verst að minn er ekki fyrr en kl. 4. Ætli ég fari ekki bara og horfi á hina stúdentana flytja sína fyrirlestra þangað til það kemur að mér.
Eitthvað sýnist mér svo veðurguðirnir hafa brugðist Agli á Keilisdeginum hans...

15.8.03

Þá held ég að það sé nú skárra að vera kynlífsfíkill. Þjóðverjar jaðra stundum við að vera jafnheimskir og BNA-menn.

París
Þá er ferðin okkar Gyðu klöppuð og klár. Við fljúgum til Parísar snemma morguns þann 10. september og komum heim seinnipartinn 14. Við gistum á massa ódýru hóteli nálægt gömlu óperunni og það fylgir meira að segja frír morgunmatur með :0)
Við eigum hins vegar ekki von á góðu ef hitabylgjan verður enn við lýði eftir 4 vikur því af verðlagningu hótelsins að dæma getur ekki verið mikið um loftkæld herbergi á því...
Er að leggja lokahönd á kynninguna á verkefninu mínu sem ég flyt næsta mánudag og stefni ótrauð að því að æfa mig við flutning á henni heima um helgina... ef einhverjir vilja vera prufuáheyrendur þá er það velkomið...
Ætla ekki annars allir að menningarvitast á morgun? Ég er kominn í svaka fíling eftir tónleika sem voru hérna í hádeginu.

14.8.03

Menningarnótt
Var að skoða dagskrá Menningarnætur Reykjavíkur og svei mér þá, ég held bara að ég verði í bænum allan daginn og allt kvöldið - það er svo margt spennandi um að vera. Mér finnst aldrei eins skemmtilegt í miðborg Reykjavíkur eins og á menningarnótt, það er bara eins og maður sé í allt öðru landi. Hverjir haldiði svo að bjóði upp á flugeldasýninguna aðrir en Freddi og félagar í Orkuveitu Reykjavíkur...

13.8.03

Þrefalt Húrra
Eftir einnar viku gleraugnaleysi get ég tekið úr mér linsurnar og tekið gleði mína á ný... því gleraugun mín eru komin í bæinn :0)

Þá styttist óðfluga í að skólinn byrji. Frá því ég byrjaði í HÍ hef ég alltaf byrjað langt á undan öllum öðrum (nema þeim sem eru í verk- og raun) - nú er samt öldin önnur því ég hef öruggar heimildir fyrir því að sjúkraþjálfarar byrji 25. ágúst en við byrjum ekki fyrr en 27. Júhú.
Miður skemmtilegur fylgifiskur nýr skólaárs eru bókakaupin - mér sýnist ég þurfa að eyða tæplega 50þús kalli í bækur og skólaföng. Það er sjúklega mikið - glatað að eyða þetta stórri summu af sumarlaununum í misgóðar skólabækur.
Nokkru skemmtilegra þykir mér þó að nú fer að styttast í vísindaferðirnar. Seint hefur maður ölinu neitað, eins og máltakið forna segir - þykir mér það sérstaklega viðeigandi ef um er að ræða ókeypis öl að lokinni erfðiðri skólaviku. Skál fyrir því.

12.8.03

*Snökt*
Elsku fíni lappinn minn er smitaður af ormi/vírus (veit ekki muninn á þessu tvennu). Það virkar ekkert nema office pakkinn og meira að segja Norton vírusvarnarforritið er bara hrunið. Þetta gerist sko á versta tíma því ég er á fullu að semja kynningu á verkefninu mínu. Siggi beibí er kominn í málið og vona ég að hann finni einhverja lausn á því. Kann einhver annar að laga svona litla fína lappa?

11.8.03

Ekki er öll vitleysan eins. Yfirvöld í Bretlandi eru voða mótfallin tilvonandi hvalveiðum okkar Íslendinga, m.a. vegna þess hve dýrin eru drepin á ómannúðlegan hátt. Í gær var hins vegar greint frá því í fjölmiðlum Bretlands að Vilhjálmur prins væri búinn að vera í þjálfunarbúðum hjá stríðsmönnum í Kenýa. Hvað haldiði að hann hafi verið að þjálfa sig í - að drepa dýr með spjóti. Honum tókst víst meira að segja að fella antilópu með einu skoti. Fyndið að gagnrýna okkur fyrir að drepa hvali með sömu aðferð.

Heitasta íslenska nýyrðið er án efa línuívilnun - hef samt ekki grænan grun um hvað það þýðir...
Helgin var fín - kíkti á gleðigönguna á Laugardaginn en missti víst af meira en helmingnum af henni þó ég hafi ekkert fattað það. Hélt bara að samkynhneigðir væru viðkvæmari fyrir rigningu en aðrir og þess vegna hefðu margir gugnað á að vera með vagn í göngunni.
Um kvöldið var svo kíkt út á lífið eftir upphitun hjá Agli wannabe match-maker. Lagði ég mitt af mörkum til að vera hinsegin á Hinsegin dögum því ég fór bara á skemmtistaði sem ég er ekki vön að sækja og endaði á Naza þar sem Páll Óskar hélt uppi dúndrandi stuði. Of stór hluti kvöldsins fór því miður í að losna við Þjóðverja sem var vægast sagt uppáþrengjandi og vildi ólmur fá mig til að sýna sér Gullfoss & Geysi. Var þetta að miklu leyti Agli að kenna því hann hafði greinilega fundið köllun sína í því að pirra mig með því að telja Þjóðverjanum trú um að ég hefði einhvern áhuga á honum. Þér mun hefnast fyrir þetta Egill!
Ekki nóg með þetta heldur reyndi líka stelpa í strákafötum við mig sem hélt í höndina á strák í stelpufötum. Semsagt frekar hinsegin kvöld!

9.8.03

Það er svo ömurlegt að þurfa að vera alltaf með linsur í augunum. *Snökt*
Er að fara á gleðigöngu Hinsegin daga á eftir og býst að venju við miklu lífi og fjöri í bænum. Ætli leðurhommarnir eigi ekki eftir að vera á útopnu... Allir að mæta til að gefa íhaldssemi og homma- og lessufóbíu langt nef. Svo er partý hjá Agli subbu í kvöld. Þar verður mikið um skríl og læti kennd við hann enda býr Egill í afar vafasömu hverfi - húddi Reykjavvíkur...

8.8.03

Ég var víst aðeins of fljót á mér í gleraugnagleðinni áðan. Dagný systir var að koma frá Köben og átti að sækja nýju gleraugun og láta setja sólgler í gömlu umgjörðina. Ekki fór það betur en svo að nýju gleraugun voru ekki tilbúin (glerin voru víst ekki komin til landsins) en sólglerin voru samt sett í gömlu umgjörina mína þannig að núna á ég engin gleraugu, bara sólgleraugu :0(
Ef þið vitið um einhvern sem er að koma til landsins á næstunni og gæti tekið gleraugun mín fyrir mig þá megiði gjarnan láta mig vita. Ég meika ekki að vera gleraugnalaus þangað til ég fer sjálf til útlanda eftir 4 vikur...

Jeij
Ég fæ líka nýju gleraugun mín og nýju sólgleraugun mín í gömlu umgjörðinni í dag, liggaliggalái! Verð engin smá pæja.

Ég er sko 80% aríi og 40% drusla og 20% fitubolla skv. þessu.

7.8.03

Ég elska 4 daga vikur (sérstaklega ef fríið raðast á mánudag). Síðasta helgi er bara nýbúin og á morgun er föstudagur... algjör snilld !

6.8.03

Hvers eiga Evrópubúar að gjalda?
Ekki nóg með það að hitabylgja sé að steikja Evrópubúa þessa dagana heldur hafa læknar nú bent á að kynlífsiðkun í þetta miklum hita auki verulega líkur á hjaraáfalli. Ekki er þó öll sagan sögð því að hiti eykur kynlöngun hjá um 28% karlmanna og 21% kvenna og því eru góð ráð dýr fyrir stóran hluta Evrópubúa...
Í ljósi þessara frekar skondnu aðstæðna hafa læknar ráðlagt fólki eftirfarandi: "Að elskast án áreynslu á kvöldin og á nóttunni, þegar orðið er svalara en fólk sem þjáist af hjartasjúkdómum ætti að reyna að vera eins óvirkt og mögulegt er."
Hjúkket að ég er ekki hjartaveikur graður Evrópubúi sem þarf að vera ignora gredduna. Híhí.

5.8.03

Maður getur nú ekki skilið við verslunarmannahelgina án þess að minnast á Árna Johnsen. Ég verð að viðurkenna að það var frekar sniðugt hjá forsvarsmönnum þjóðhátíðar að láta eins og Árni ætti ennþá séns á að komast í brekkusönginn - þeir fengu helling af ókeypis kynningu og umfjöllun fyrir vikið. Dómskerfi landsins er þó greinilega ekki eins arfaslappt og ég óttaðist fyrst það var löngu ákveðið að Árni fengi ekki "frí" frá afplánun til þess að fara á fyllerí...
En nóg um það. Ég er svo hneyksluð á bréfinu sem Árni sendi á þjóðhátíð að ég er bara næstum því kjaftstopp. Mér finnst að hann eigi ekki að komast upp með að úthúða yfirmönnum þjóðarinnar á jafnbarna- og kjánalegan hátt (NB: Ég styð ekki ríkisstjórnina). Ef maðurinn fer ekki að halda kjafti á fólk aldrei eftir að gleyma afbrotum hans. Ég sver það, meira að segja Ingjaldshólsfíflið hefði ábyggilega haft vit á að halda kjafti í stöðunni.
Mér þætti spennandi að vita hvað dyggum lesendum síðunnar finnst um málið...

Ó boj
2 lyftur af 3 eru bilaðar í vinnunni sem þýðir að annaðhvort þarf maður að bíða óhemjutíma eftir þessari einu lyftu sem er í lagi eða ráðast á hringstigann ógurlega...
Maður verður geðveikt ringlaður af því að labba upp/niður hann og svo sér maður beint niður svo hann er alls ekki fyrir lofthrædda (eins og mig). Niðurstaða: Ég á bágt í vinnunni í dag.
P.S. Svo var hádegismaturinn líka vondur *Snökt*

Sybbin... hef ekkert að segja... *Geisp*

1.8.03

Jeij !
Ég má bara taka mér launað frí í vinnunni það sem eftir er af deginum. Það finnst mér algjör snilld. Góða skemmtun um helgina öll sömul :0)

Gleraugnaleitinni ógurlegu lauk í gær þegar ég pantaði mér alveg hreint magnaða Dolce & Gabbana umgjörð. Því miður er ég orðin svo nærsýn (-3,75 - verð blind eftir nokkur ár með þessu áframhaldi) að ég þurfti að panta extra þunn gler af því að annars hefðu glerin orðin eins og flöskubotnar á hliðunum af því að umgjörðin er "köntuð" (það þýðir að það er engin umgjörð í hliðunum og undir glerjunum - semsagt bara umgjörð ofan á). Nýju gleraugun kosta því rúmlega 30 000 krónur sem mér finnst rán! Mér finnst ósanngjarn að maður fái ekkert endurgreitt frá tryggingafélögunum eða eitthvað þannig (eins og þegar maður fer til læknis). Ekki er það mér að kenna að ég sjái illa. Ef ég fer einhvern tímann á þing (líkurnar á því eru btw örsmæðarstærð) ætla ég að reyna að gera eitthvað í þessum málum.