!
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
Hugleiðingar forða- og eðlisefnafræðistúdínu
... beðist er afsökunar á nördaskap ...
31.3.03

Oj barasta. Er að rembast við að læra fyrir seinna eðlisefnafræðipróf misserisins. Námsefnið er með allra leiðinlegasta móti... sjitt hvað það verður gaman að fá sumarfrí. Annars finnst mér skuggalega stutt þangað til ég fer út... bara rúmt hálft ár... Ætla ekki ábyggilega allir að koma og heimsækja minnz í kóngsins Köben ??? Ég veit amk að Kristín á eftir að vera tíður helgargestur þar sem hún verður bara hinum megin við Eyrarsundið (í Lundi nánar tiltekið) og allir vita að næturlífið í Sverige kemst ekki í hálfkvisti við stemninguna í Danmörku :0)
(segir maður annars ekki að komast í hálfkvisti við ??? Ég sver það ég kann varla íslensku lengur)

29.3.03

Djö, Ísland tapaði á móti Skotum... Frekar svekkjandi afþví þeir voru ekkert síðri í seinni hálfleik (en reyndar afspyrnuslakir í þeim fyrri). Strákarnir okkar geta þó huggað sig við að þeir eru silljón sinnum myndarlegri en Skotarnir. Ég hef bara aldrei séð annað eins samansafn af ófríðum durgum, svei mér þá ef Skotar eru ekki bara ljótari en Englendingar.

Eins og flestir vita þá er mikið um hefðir í MR og hefur gærdagurinn verið aldeilis skemmtilegur fyrir MR-inga þar sem þá fór fram gangaslagur og hélt Gettu-betur lið skólans uppteknum hætti og vann spurningakeppni framhaldsskólanna 11. árið í röð...
OK, kannski er kominn smá MR-hroki í mig en só vott... við erum einfaldlega best :0)

28.3.03

BuHu
Ég auglýsi hérmeð eftir hafmeyjunni minni. Hún hefur ekki birst á síðunni í marga marga daga og sakna ég hennar ákaft. Veit einhver hvar ég get fundið hana ? Sniff...

26.3.03

Undur og stórmerki hafa gerst. Ég er einungis 1 og hálfum kafla á eftir áætlun í lífrænni efnafræði. Það er alveg hreint magnað ef tillit er tekið til þess að ég byrjaði bara að kíkja á hana fyrir viku... Enda er ég búin að liggja yfir þessu eins og eitthvað mongó. Er orðin séní í greiningu á NMR-rófum (þau eru bæðevei geðveikt kúl) en hvarfgangarnir eru enn eitthvað smávegis að stríða mér en það er allt í lagi, maður setur þá hvort eð er bara alltaf í skammtímaminnið daginn fyrir próf.
Get ekki ákveðið hvort ég eigi að verðlauna mig fyrir dugnaðinn og chilla feitt yfir vídjó í kvöld eða vera áfram mongó og byrja á 21. kafla sem fjallar um afleiður karboxýlsýra og kjarnsækin acyl-skiptihvörf...

25.3.03

Rétt í þessu fékk ég alveg óstjórnanlega löngun í popp. Ég rölti mig því inn í eldhús í rólegheitum og hugðist poppa mér popp upp á gamla mátann (úr maísbaunum... miklu hollara og betra en örbylgjupopp) þegar ég sé alltí einu að það er enginn poppmaís til. Ég varð frekar pirruð en ákvað þá að fá mér bara örbylgjupopp í þetta skiptið. Hvað haldiði að hafi þá komið upp á ... það var búið að aftengja örbygljuofninn því það er verið að breyta eldhúsinu og hann var á asnalegum stað inni í stofu. Popplöngunin dró pirringinn yfir þessu yfirliði og ég burðaðist með örbylgjuofninn að innstungu og poppaði mér örbylgjupopp á gólfinu...

Ég var að fatta að nú er bara rúmlega 1 og hálfur mánuður í sumarfrí. Afhverju er skólaárið alltaf svona sjúklega fljótt að líða ? Kannski er það rétt að tíminn líði sífellt hraðar eftir því sem maður eldist. Mér finnst það samt ekkert gaman af því ef það er rétt þá er ekkert voðalega langt þangað til ég verð orðin ellismellur...

23.3.03

Hvers á ég eiginlega að gjalda ??? Er nýbúin að losna við lufsuflensuna sem ég var með alla síðustu viku og hvað haldiði ... ég er komin með glænýja veiki. Einhverja ömurlega magakveisu með fylgjandi upp- og niðurgangi. Er ekki búin að geta borðað neitt í dag. Þetta er ömurlegt og ákaflega ósanngjarnt !!!

22.3.03

ó boj ó boj
Er búin að vera alltof löt að læra og nú er orðið ljóst að ég bara get ekki lært heima hjá mér. Verð að fara að flytja upp á bókhlöðu sem fyrst og lúra þar yfir skólabókunum. Verst að það er bara alltaf svo skítkalt þar... ætli ég endi ekki á að taka með mér flísteppi...

21.3.03

Þessi vika er búin að vera frekar sökkí. Er búin að liggja með flensku frá því um helgina og er ennþá hálfslöpp. Fór samt út að borða á Argentínu á miðvikudaginn með stelpunum úr Hjallaskóla og kallarnir fengu meirað segja að fljóta með. Ég hafði aldrei áður borðað á Argentínu en mæli sko eindregið með staðnum. Hef sjaldan fengið jafngóðan mat og þjónustan var superb...
Okkur Matlab-gellunum til ómældrar ánægju kláruðum við forrit vikunnar á mettíma og gott ef við erum bara ekki orðnar skítsæmilegar í Matlab.
Ætla svo ekki ábyggilega allir að djamma á morgun ?? Ég er amk að fara á árshátíð saumaklúbbsins í MR og þar verður án efa mikið glens og mikið gaman...

18.3.03

Ég er svoooo sammála pistlinum hans Egils um Kanahrokann sem tröllríður heiminum um þessar mundir. Hvað þykjast þeir eiginlega vera... taka ekkert mark á Sameinuðu Þjóðunum bara af því að þær eru ósammála Bush. Hrokinn í Bandaríkjamönnum er óþolandi, þeir halda að þeir geti bara ráðist inn í Írak og sprengt Bagdag aftur niður á steinaldarstigið þegar meirihluti almennings um allan heim er algjörlega á móti stríði. Þeim á aldrei eftir að takast að ná Saddam Hussein, ekki frekar en þeim tókst að ná bin Laden. Í staðinn eiga bara hundruð þúsunda almennra borgara eftir að falla í valinn. Svo eftir að Bush er búinn að sprengja allt sundur og saman þá á hann bókað eftir að ætlast til þess að Sameinuðu Þjóðirnar taki þátt í kostnaðinum sem fylgir uppbyggingu Íraks, þ.e. kostnaðinum við að byggja upp allt sem hann á eftir að sprengja. Þetta er bara algjör skandall að Bush og félagar skuli komast upp með þetta !! Hvað er svo málið með gimpaháttinn í Tony Blair ?!? Og afhverju erum við Íslendingar fylgjandi stefnu Bush ??? Ég hélt að Ísland gæti ekki sagt öðru ríki stríð á hendur.
Eins og þið sjáið þá er ég búin að fá alveg nóg af þessari "við-erum-yfir-allt-hafnir-stefnu" bandaríkjamanna. Þeir geta farið í görn fyrir mér. Og helst í görnina á Saddam Hussein.

17.3.03

Ég get ekki lýst því hvað auglýsingarnar um dönsku dagana í Hagkaup fara í taugarnar á mér. Var virkilega ekki hægt að fá einhvern með almennilegan framburð til þess að lesa inn á þær. Það er hreinn hryllingur að hlusta á þær og svo ég tali fyrir mitt leyti þá draga þær úr allri löngun hjá mér í allt danskt !! Þá bið ég frekar um Thule-auglýsingarnar.

Oj barasta, ég er komin með þessa ógeðslegu flensu sem er að ganga. Ég þoli ekki að vera veik. Ætlaði að vera búin að læra svo mikið en er ekki búin að hafa orku í neitt. Fuss !!

14.3.03

Ég er að fara heim til Hauks að glápa á vídjó og hann krefst þess að ég komi með nammi og lyklaborð í aðgöngueyri. Mér finnst þessi krafa honum til háborinnar skammar og hef ég útbúið vúdú-dúkku sem lætur hann fá illt í magann af öllu namminu sem hann lætur mig borga ofan í sig. Sá hlær best sem síðast hlær Haukur minn...
Er annars að fara að vinna í kvöld og líka á morgun, ekki veitir af ... bankabækurnar mínar eru ekki upp á marga fiska þessa dagana.
P.S. virka annars svona vúdúdúkkur ?

13.3.03

Sjitt hvað ég er búin að vera löt við að blogga. Þetta er bara alveg með ólíkindum. Reyndar hef ég mér til málsbóta að internetið er búið að vera bilað hérna heima síðustu daga svo það útskýrir kannski ogguponsu af þögn síðustu margra daga.
Það hefur nú ekki mikið drifið á daga mína upp á síðkastið. Fór í asnalegasta og lengsta próf ævi minnar á mánudaginn þar sem meðaleinkunnin verður ábyggilega í kringum 1...
Næsta vika á samt eftir að vera mjög skemmtileg... er að fara út að borða með Hjalló-stelpunum á Argentínu (afþví Eva frænka og Elísabet verða báðar á landinu, jibbý!!). Laugardaginn 22. mars er það svo árshátíð MR-saumaklúbbsins og þar verður eflaust mikið um dýrðir eins og venjan er þegar 17 trylltar stúlkur í djammfíling hittast.
Að lokum flyt ég ykkur öllum miklar gleðifréttir: Ég er búin í verklegu þessa önnina og get þar af leiðandi farið að opna bækur í þeim fögum sem hafa legið illilega á hillunni... Jeij !!!

4.3.03

Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera heimasæta á stóru heimili... sérstaklega ekki ef yngri systkinin eru bara kvenkyns. Foreldrar mínir eru sífellt farnir að nýta sér það ákafar að yngri systur mínar líti á mig sem einhverja fyrirmynd (þó ég hafi orðið lítt vör við það) og nota mig sem millilið til þess að færa þeim alls kyns skilaboð, komast að því hvort eitthvað er að angra þær og fleira í þeim dúr. Mér er farið að þykja þetta ansi hvimleitt... Núna áðan var ég tam send með litlu systur í bíltúr til að komast að hinu og þessu sem mömmu hefur ekki tekist að ná upp úr henni.

2.3.03

Ein af mínum verstu martröðum varð að veruleik í kvöld... Foreldrar mínir kölluðu til húsfundar. Mér sýnist þetta fyrirbæri ekki tíðkast á öðrum heimilum og skuluð þið hin sko prísa ykkur sæl !!! Hvað er verra en að hlusta á upptalningu á því hvað maður er ekki búinn að standa við sinn hluta af húsverkunum í margar margar margar vikur ?!? Eitt er amk víst. Á mínu heimili verða sko ekki húsfundir !